Yfir þúsund manns skrifað undir til stuðnings Ingó

Ingólfur Þórarinsson hefur stýrt brekkusöngnum á Þjóðhátíð undanfarin ár.
Ingólfur Þórarinsson hefur stýrt brekkusöngnum á Þjóðhátíð undanfarin ár.

Rúmlega þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftalista og skorað á þjóðhátíðarnefnd ÍBV að endurskoða ákvörðun sína um að afbóka tónlistarmanninn Ingólf Þórarinsson á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Söfnunin hófst í hádeginu í dag.

Ingólfur, eða Ingó, hefur stjórnað brekkusöng Þjóðhátíðar síðustu ár en var afbókaður í ár í kjölfar ásakana um kynferðisofbeldi.

Undirskriftalisti með nöfnum yfir 130 kvenna var sendur til þjóðhátíðarnefndar þar sem lagst var gegn því að Ingó myndi stýra brekkusöngnum.

Þá birti hópur femínista á TikTok tuttugu innsendar sögur frá konum þar sem þjóðþekktur tónlistarmaður er sakaður um kynferðisbrot, meðal annars um áreitni og nauðganir.

Athygli vekur að stelpurnar sem um ræðir voru margar undir lögaldri, jafnvel um 14 ára aldur. Maðurinn er ekki nafngreindur af hópnum en fram hefur komið að um er að ræða Ingólf Þórarinsson, eða Ingó veðurguð.

„Múgæsingur á samfélagsmiðlum

Á bak við undirskriftasöfnunina stendur Tryggvi Már Sæmundsson, fyrrum framkvæmdastjóri ÍBV. Tryggvi ætlar að skila inn undirskriftalistanum til þjóðhátíðarnefndar innan fárra daga og vonar að hún taki málið til endurskoðunar.

„Þessi undirskriftarlisti snýst um að ef það sem er sett á samfélagsmiðla fer að stjórna öllum viðburðum og öðru slíku, þá finnst mér við vera komin út á svolítið hálan ís. Ef múgæsingur á samfélagsmiðlum getur farið að dæma og koma mönnum út af sakramentinu þá veit ég ekki alveg hvert við erum komin í þessu. Það var kannski undirrótin að því að ég fór af stað með þetta,“ segir Tryggvi.

Tryggvi Már Sæmundsson.
Tryggvi Már Sæmundsson.

Myndi endurskoða málið ef kæra kæmi fram

Hann segist með þessu alls ekki vera að taka afstöðu til þess hvort að ásakanirnar séu sannar og segir annarra að dæma um það.

„Eitthvað af þessu eru margra ára gamlar sögur og ég harma það mjög ef fólk sem lendir í ofbeldi fer ekki og lætur vita af því á réttum stöðum. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þolendur komi þessu áfram, þó að það sé ekki kært strax þá er mjög mikilvægt að koma því í farveg fljótlega eftir að slík brot eru framin,“ bætir hann við.

Myndi það þá breyta þinni afstöðu til málsins ef það kæmi fram kæra?

„Það yrði náttúrulega að meta það upp á nýtt ef það kæmi kæra fram, þá náttúrulega tekur við lögreglurannsókn þannig að ég býst fastlega við því að það yrði endurskoðað.“

Hefur fengið sterk viðbrögð

Tryggvi er búinn að fá mikil viðbrögð við framtakinu, bæði jákvæð og neikvæð.  

„Ég er búinn að fá mikinn stuðning við að vekja máls á þessu og eins náttúrulega eru einhverjir sem eru ósáttir við þennan framgang sem ég ber virðingu fyrir.“

„Ég geri mér grein fyrir því að þetta er viðkvæmt málefni og ekki auðvelt að fjalla um það en ég var svolítið hissa á því hvernig þetta fór og að nefndin skyldi taka þessa ákvörðun að henda honum út sér í lagi því það höfðu ekki komið fram, alla vega opinberlega, nein ný rök í málinu,“ segir Tryggvi.

Hægt er að kjósa að gæta nafnleyndar þegar skrifað er undir listann. Tryggvi segist ekki vita hvort síðan muni birta nöfn þeirra sem skrifa undir en segist ætla að afhenda þjóðhátíðarnefnd allar undirskriftir. Þar muni þó væntanlega einungist birtast nöfn þeirra sem hafa ekki kosið að vera undir nafnleynd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert