32 stúlkur úr KR í sóttkví og missa af Símamótinu

Frá Símamótinu árið 2015. 32 stúlkur úr KR eru komnar …
Frá Símamótinu árið 2015. 32 stúlkur úr KR eru komnar í sóttkví og geta ekki tekið þátt í ár. Ljósmynd/Styrmir Kári

32 stúlkur í fimmta og sjötta flokki KR í fótbolta geta ekki tekið þátt í Símamóti Breiðabliks sem fram fer í Kópavogi um helgina vegna þess að ein stúlka í hópnum greindist með Covid í gær.

Símamótið er stærsta knattspyrnumót landsins en keppendur eru um þrjú þúsund. Mótið er fyrir 5., 6. og 7. flokk kvenna og eru stúlkurnar 8 til 12 ára.

Íunn Eir Gunnarsdóttir, þjálfari stúlknanna, fékk símtal í gærkvöldi vegna smitsins. „Það greinist stelpa hjá okkur í flokknum með Covid og út frá því hefur rakningarteymi samband við mig sem þýðir að allar stelpurnar sem voru á þessum æfingum þurfa að fara í sóttkví, sem eru sirka 32 stelpur og við þjálfararnir líka,“ segir hún. 

Tækla þetta með jákvæðni og samheldni

KR þurfti að draga öll lið sín í fimmta flokki, fjögur talsins, úr keppni ásamt einu liði í sjötta flokki vegna þess að tvær stúlkur þaðan voru á æfingum með fimmta flokki.

Þrátt fyrir allt bera stelpurnar sig vel. „Þetta er náttúrlega ótrúlega leiðinlegt en samt sem áður hafa þær tekið þessu ótrúlega vel. Eins leiðinlegt og það er að missa af Símamótinu, sem er eitt stærsta mótið sem þær fara á og þær eru búnar að bíða eftir því í ár, þá er ótrúlega góð samstaða í hópnum og við erum búnar að ákveða að við gerum bara eitthvað skemmtilegt í staðinn,“ segir Íunn.

„Þetta er frábær hópur sem ég er með í höndunum, þær eru ótrúlega jákvæðar og samheldnar og tækla þetta eins og annað.“

Nóttin fór í endurskipulagningu mótsins

Þegar liðin sex drógu sig úr keppni með skömmum fyrirvara í gær þurfti að endurskipuleggja mótið.

Jóhann Þór Jónsson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks, segir að nóttin hafi farið í það og því hafi leikjaskipulagið verið birt örlítið seinna en ella.

„Við fengum að vita af þessu seint í gærkvöldi og erum afskaplega miður okkar yfir því að þessar stelpur fái ekki að taka þátt, því þær eru búnar að hlakka til þessa í allt sumar og æfa. Okkar hugur er náttúrlega aðallega hjá þeim, þó að við höfum þurft að eyða nóttinni í að endurskipuleggja mótið þá skiptir það minnstu máli, en við erum bara algjörlega miður okkar að þær skuli missa af þessu,“ segir hann.

Smitin munu ekki hafa áhrif á Símamótið og segir Jóhann þau vera með svipaðar sóttvarnarreglur og í fyrra, til að mynda hólfaskiptingu og aðskilnað flokka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert