„Ég skulda móður minni réttlæti“

Viðar Eggertsson leikstjóri ásamt hundinum Ísari.
Viðar Eggertsson leikstjóri ásamt hundinum Ísari. Ljósmynd/Aðsend

„Ég skulda móður minni réttlæti. Hún á það skilið þegar hún verður 100 ára að þetta mál verði tekið upp og að hún fái viðurkenningu á stöðu sinni. Viðurkenningu á því að hún var beitt órétti,“ segir Viðar Eggertsson leikstjóri. Hann er einn fimmmenninganna sem hafa vakið athygli borgarstjórnar á óhugnanlegri starfsemi vöggustofanna sem voru starfræktar í Reykjavík á árunum 1949-1973.

Viðar hafði sjálfur verið vistaður á vöggustofu ásamt tvíburasystur sinni en að hans sögn var móðir hans fátæk vinnukona sem buðust ekki mörg úrræði. Var hann vistaður þar til tveggja og hálfs árs aldurs en þegar systkinin luku dvölinni voru þau hvorugt talandi enda var lítið lagt upp úr umönnun barna á þessum stofnunum.

Í ár hefði móðir Viðars orðið 100 ára gömul og telur hann viðeigandi að rannsókn á starfsemi vöggustofanna verði tekin fyrir en á miðvikudaginn tilkynnti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að Reykjavík myndi fallast á beiðni fimmmenninganna og hefja úttekt á málinu.

Vilja láta rannsaka vöggustofurnar

Á vöggustofunum voru börn á aldrinum 0-2 ára vistuð sem höfðu verið tekin úr umsjá foreldra sinna eða færð þangað að frumkvæði þeirra í ljósi óviðráðanlegra aðstæðna heima fyrir. Oftar en ekki voru þetta einstæðar mæður sem sviptar voru forræði yfir börnum sínum en forstöðukonurnar á vöggustofunum höfðu vald til að skera úr um hvort aðstæður á heimilum væru viðunandi eður ei. Ef ástæða þótti til gátu foreldrar og mæður fengið börnin til sín að nýju en ef ekki voru þau ýmist send í fóstur, á önnur vistheimili eða ættleidd af barnlausum fjölskyldum.

Viðar, ásamt Árna H. Kristjánssyni, Fjölni Geir Bragasyni, Hrafni Jökulssyni og Tómasi V. Albertssyni, sendi greinargerð á borgarstjórn þar sem þeir fóru fram á að gerð yrði úttekt á starfsemi vöggustofanna. Allir höfðu þeir verið vistaðir á vöggustofum sem ungabörn og margir af þeim á fleiri opinberum uppeldisstofnunum.

Í greinargerðinni er starfsháttum vöggustofunnar lýst sem uppeldisstefnu sem miðaði eingöngu að því að sinna líkamlegum þörfum barnanna. Voru þau látin liggja í rimlarúmum bróðurpartinn úr deginum og var starfsfólki forboðið að snerta eða tala við þau nema nauðsyn krefði.

Telur Viðar skaðann sem börnin hlutu af vistuninni fyrst og fremst vera í formi andlegs ofbeldis og bendir hann á að frumár bernskunnar séu þau allra mikilvægustu í þroskamótun barna til að mynda félagsleg tengsl og tilfinningalíf. „Það var tekinn frá þeim allur kærleikur, öll tilfinningaleg örvun og þeim haldið í gjörgæslu án þess að vera snert eða talað við þau.“

Fimmmenningarnir fyrir fund með borgarstjóra í gær. Frá vinstri er …
Fimmmenningarnir fyrir fund með borgarstjóra í gær. Frá vinstri er Árni H. Kristjánsson, Hrafn Jökulsson, Viðar Eggertsson, Tómas V. Albertsson og Fjölnir Geir Bragason. Ljósmynd/Unnur Karen

Viðar telur í raun merkilegt að hann skyldi komast gegnum þetta betur en margur annar, en að hans sögn var hann í uppáhaldi hjá forstöðukonunni og fékk því meiri athygli en önnur börn. „Það var haldið á mér og hjalað við mig en samt ekki meira en það að ég var ótalandi þegar ég kom út.“

Ungum mæðrum stillt upp við vegg

Ein af þeim hliðum sem Viðar telur sérstaklega mikilvægt að verði rannsökuð er ættleiðingarferlið sem átti sér stað á vöggustofunum. Segir hann ungum mæðrum hafa verið stillt upp við vegg og hagsmunir þeirra hafi lotið í lægra haldi fyrir barnlausum fjölskyldum sem óskuðu eftir ungbarni. „Fólk sem kom af betri heimilum gat komið og gægst á gluggana og valið sér börn til ættleiðingar,“ tiltekur Viðar.

Telur hann mikilvægt að þessi angi verði rannsakaður til hlítar en afar ófaglega hafi verið staðið að þessu ferli. Hafi verið þrengt að konum í veikri stöðu og margar hverjar neyddar til þess að afhenda börnin sín.

Segir meðal annars í greinargerðinni sem fimmmenningarnir stóðu fyrir, að góð sambönd hafi aukið líkur fólks á að fá barn í hendurnar. Forstöðukonurnar og Barnavernd Reykjavíkur voru í fararbroddi í þeim málum en í Ársskýrslu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1967 og 1969 kom fram að það væri fjárhagslega hagkvæmt fyrir borgina að vista börn á einkaheimili. Ættleiðingarferlið var því bæði í hag barnlausra hjóna og einnig félagsmálayfirvalda. 

Spurning um réttlæti og viðurkenningu

Spurður hvaða þýðingu það hafi fyrir hann ef málið yrði tekið upp segir Viðar þetta fyrst og fremst snúast um réttlæti og viðurkenningu á því sem miður fór.

„Við þurfum að fá að vita hvað gerðist í raun og veru. Þetta er réttlæti, bæði handa börnunum sem þarna voru, mæðrum þeirra og í sumum tilvikum afkomendum þeirra líka. Sum af þessum börnum sem þarna var komið fyrir hafa aldrei borið þess bætur í lífinu síðan. Ég veit dæmi um börn sem þarna voru, þau sköðuðust svo mikið að þau urðu öryrkjar allt sitt líf.“

Vöggustofa Torvaldsensfélagsins var starfrækt frá árinu 1959 en hún tók …
Vöggustofa Torvaldsensfélagsins var starfrækt frá árinu 1959 en hún tók við starfsemi vöggustofunnar að Hlíðarenda. Ljósmynd/Aðsend

Segir Viðar mæðurnar hafa upplifað mikla vanvirðingu ef upp komst að börnin þeirra hefðu verið á vöggustofum og því hafi þær reynt að fara leynt með þessar upplýsingar. Telur hann mikilvægt að bæði Reykjavíkurborg og samfélagið taki ábyrgð á að þetta skuli hafa viðgengist. Vill hann að sannleikurinn komi í ljós svo bæði börnin og foreldrarnir fái uppreist æru og fái að skila skömminni.

„Þetta hvíldi á mæðrunum alla ævi, það var litið niður til þeirra af starfsfólki heimilanna, litið á þær sem annars flokks verur og óþurftarmanneskjur. Þær máttu ekki einu sinni fara og heimsækja börnin sín. Þær áttu það ekki skilið. Þessar konur þurfa uppreist æru.“

Tók þrjú ár að rifja upp vöggustofuárin

Árið 1993 var frumfluttur þáttur á Rás 1 úr smiðju Viðars þar sem hann vakti athygli á starfsemi vöggustofanna og byggði á frásögnum móður sinnar.

Að hans sögn var móðir hans búin að grafa minningarnar frá vöggustofuárunum djúpt niður. „Þegar ég hafði samband við hana þá var eitthvað að bresta og það brast svo mikið að hún gat bara grátið og hún kom ekki upp orði. Að lokum hafði hún samband að fyrra bragði og þá hafði tekið hana þrjú ár að grafa upp þessar minningar og segja frá þeim.“

Þættirnir hafa verið fluttir í útvarpinu alls sjö sinnum og vekja þeir jafnan mikla athygli að sögn Viðars. Aldrei hefur þó komið til þess að rannsókn á málinu yrði tekin upp fyrr en nú. Kveðst hann bjartsýnn á að málið sé komið í réttan farveg og treystir hann því að borgarstjórinn muni standa við orð sín. Þykir honum mikill léttir að loksins sé verið að taka á málinu, nú þegar 73 ár eru liðin frá því fyrsta vöggustofan komst á laggirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert