Mál læknis sem hefur verið sviptur starfsleyfi, vegna ónauðsynlegra aðgerða sem hann framkvæmdi, á sér engin fordæmi. Þetta segir Alma Möller landlæknir í skriflegu svari til mbl.is.
Í skýrslu embættis landlæknis kemur fram að alvarlegast hafi verið að læknirinn hafi framkvæmt tólf aðgerðir án viðurkenndra ábendinga, meðal annars á tveggja ára barni og fimmtán ára stúlku. Þá framkvæmdi hann einnig óeðlilega margar aðgerðir, alls 53 ónefndar aðgerðir, á þriggja mánaða tímabili en aðrir læknar á sömu stofu framkvæmdu 0-2 aðgerðir af sama toga á því tímabili.
Alma telur málið ekki til marks um brotalöm í eftirliti með starfsháttum lækna en embætti landlæknis og heilbrigðisstofnanir munu eigi að síður draga lærdóm af málinu.
„Það er vitanlega alvarlegt að þarna hafi inngrip verið gert í líkama fólks án læknisfræðilegrar ástæðu. Almenningur á skýlausan rétt á því að fá heilbrigðisþjónustu sem miðast við ástand og horfur á hverjum tíma. Í þessu tilfelli var það ekki raunin að mati hinna óháðu sérfræðinga og starfsmanna embættisins,“ segir í svari Ölmu.
Telur þú þörf á að efla eftirlit með starfsháttum lækna til þess að koma í veg fyrir mál af þessum toga?
„Þetta tiltekna mál snertir á margvíslegum hliðum eftirlits með heilbrigðisstarfsfólki og stofnunum og það er eðlilegt að við hjá embætti landlæknis ásamt heilbrigðisstofnunum og sjálfstætt starfandi sérfræðingum drögum lærdóm af þessu máli.“
Hún heldur áfram: „Þetta mál er bæði alvarlegt og umfangsmikið en í því er ekki að finna vitnisburð um að brotalöm sé í eftirliti með starfsháttum heilbrigðisstarfsfólks. Eftirlit liggur bæði hjá embætti landlæknis og Sjúkratryggingum Íslands enda komu báðar stofnanir að þessu máli,“ skrifar Alma.
Hafa sambærileg mál komið á borð embættisins?
„Nei, ekki af sama umfangi.“
Er þetta dæmi um hættu sem getur skapast með einkavæðingu heilbrigðiskerfisins?
„Heilbrigðisstarfsmenn geta brostið í faglegum vinnubrögðum og dómgreind hvar svo sem þeir vinna innan heilbrigðiskerfisins,“ svarar Alma. Málið sé fyrst og fremst áminning um mikilvægi þess að hafa til staðar öfluga eftirlitsinnviði til að tryggja eins og kostur er að fólk sé að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu: „og rétt sé farið með það almannafé sem fjármagnar þá þjónustu,“ skrifar hún að lokum.