Þrátt fyrir að íslenskt efnahagslíf hafi orðið fyrir þungu höggi af völdum kórónuveirunnar hafa efnahagsúrræði stjórnvalda reynst vel og nú má reikna með öflugum viðsnúningi í efnahagslífi landsins.
Þetta eru helstu niðurstöður í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um íslenskt efnahagslíf, sem kynnt var á blaðamannafundi í gær af Alvaro S. Pereia, forstöðumanni hagrannsókna OECD, og Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.
Pereia sagði að íslenskt efnahagslíf væri vel á vegi statt til efnahagslegrar endurreisnar eftir kórónukreppuna, sem rekja mætti með beinum hætti til efnahagsúrræða stjórnvalda. Útflutningsgreinar aðrar en ferðaþjónusta hefðu sótt í sig veðrið í faraldrinum en nú þegar væri hún að taka við sér. OECD mælist til að áfram verði leitast við að opna fjármagni leið inn í landið, skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf, auka samkeppni og framleiðni.
OECD telur að hagvöxtur á Íslandi geti orðið meiri á næstunni en spáð hefur verið, 2,2% á þessu ári og 4,7% á hinu næsta. Sú sé alls ekki raunin í öllum OECD-ríkjum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.