Tilraunastöð háskólans í meinafræðum hefur verið starfrækt á Keldum í um 70 ár. Hún sinnir rannsóknum, þjónustu og vöktun á dýrasjúkdómum, þjónustu við landbúnað og fiskeldi og sér Landspítalanum fyrir blóði.
Hún framleiðir einnig bóluefni og mótefnablóðvökva til notkunar á rannsóknastofum sjúkrahúsanna svo eitthvað sé nefnt. Er þetta eina dýrasjúkdómastofnun landsins og hefur þar byggst upp áratuga sérþekking á dýrasjúkdómum og dýraheilbrigði.
Samkvæmt samningi fjármálaráðuneytisins við félagið Betri samgöngur ohf. verður Keldnalandið fært undir eignarhald félagsins. Er þetta framlag ríkisins til borgarlínunnar en Betri samgöngur munu selja lóðir í Keldnalandinu og nota ágóðann í framkvæmdir til bættra samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg kemur svo að þessu sem skipulagsaðili.
Í samningi ríkisins og félagsins ábyrgist ríkið að fást muni minnst 15 milljarðar króna fyrir Keldnalandið, miðað við fulla nýtingu. Tilraunastöðin á Keldum er því orðin að víkjandi starfsemi samkvæmt samningnum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir er ónæmisfræðingur og starfar á Keldum. Hún segir að tilraunastöðin hafi ætlað að auka við húsakostinn samkvæmt löngu samþykktum teikningum. Keldur væru komnar í húsnæðisþrot. Borgin samþykkti beiðni Keldna um að byggja en tók fram að í ljósi hins nýja samnings um eignarhald verði stofnunin að vera reiðubúin að rífa húsakostinn á eigin kostnað þegar borgin krefðist. Sigurbjörg segir Keldur því vera í pattstöðu og að ekkert komi frá menntamálaráðuneytinu, sem bregðist hér sinni stofnun.