Staðfestir frásagnir um hegðun Ingó

Andrea Aldan Hauksdóttir.
Andrea Aldan Hauksdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Mín saga er til þess að staðfesta frásagnirnar um hans hegðun og hver karakter hans er, sérstaklega þegar hann er í glasi,“ segir Andrea Aldan Hauksdóttir í samtali við mbl.is.

Þegar Andrea var 19 ára var hún stödd í veislu þar sem tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó veðurguð, var einnig. Hún segir Ingó hafa komið upp að henni og tekið upp pilsið hennar. Andrea bað hann um að hætta en Ingó hélt áfram að áreita hana allt kvöldið. Hún hafi þá spurt hann hvers konar siðferðiskennd hann hefði og hann þá brostið í grát.

Andrea segist átta sig á því að Ingó hafi áreitt hana og að hegðun hans hafi ekki verið í lagi. „Ég deili þessari sögu til þess að hann komist ekki upp með hegðunina.“ Andrea bendir á að hún hafi einungis verið 19 ára en verið með skýr mörk sem hafi þó ekki alltaf verið raunin. „Ég veit hins vegar ekki hvort ég hefði komið fram ef hann hefði náð að brjóta á mér frekar.“

Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó veðurguð.
Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó veðurguð. Mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Á samfélagsmiðlinum Tik Tok birti hópur femínista, Öfgar, alls átta myndskeið þar sem þjóðþekktur tónlistarmaður er sakaður um ítrekað kynferðislegt ofbeldi í garð kvenna og ungra stúlkna. Hópurinn hefur á samfélagsmiðlum forðast að nafngreina tónlistarmanninn, en um er að ræða Ingó.

„Það getur enginn eyðilagt þitt mannorð nema þú sjálfur, nema kannski í fáum undantekningartilfellum,“ segir Andrea og bætir við að alltof algengt sé að menn í valdastöðum séu að misnota frægð sína og frama til þess að misnota og áreita einstaklinga.

Hafa annað betra að gera við tíma sinn

Ingó hefur sagt í viðtölum að hann ætli að leita réttar síns í kjölfar ásakana. „Heldur fólk virkilega að stelpur hafi ekki eitthvað betra við tímann sinn að gera en að vera í ráðabruggi um að leggja Ingó í einelti svo hann sé ekki að fara að spila á gítar á Þjóðhátíð. Fólk hefur svo margt annað betra við tímann sinn að gera. Mér finnst ekki skipta máli fyrir mig persónulega hvort ég komi fram undir nafni. Ég veit að ég er að gefa færi á mér og hann gæti kært mig en mér finnst þetta bara vera komið gott.“

Andrea nefnir að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi þar sem maður nauðgaði henni þegar hún var dáin áfengisdauða. „Þegar fyrsta bylgja metoo hófst man ég hvað mér fannst ótrúlegur léttir að vita að aðrir hafi verið í sömu stöðu og að reynsla mín væri tekin gild. Augun mín opnuðust einnig fyrir því hversu miklu ofbeldi ég hafði verið beitt en gerði mér ekki grein fyrir því.“

Hvetur þú aðrar konur til að koma fram undir nafni?

„Það er nefnilega vandamálið. Réttarkerfið er svo ótrúlega rotið að það eru allar líkur á því að Ingó myndi ná að snúa málinu við,“ segir Andrea og bendir á að hún sé enn óviss hvort hún eigi að kæra manninn sem nauðgaði henni þar sem 90% líkur séu á að málið yrði fellt niður. Því geti hún ekki sagt öðrum konum hvað þær eigi að gera í þessari stöðu.

Þjóðhátíðarnefnd ÍBV tók þá ákvörðun í kjölfar ásakana að Ingó myndi ekki koma fram á Þjóðhátíð. Í kjölfar kom fram undirskriftalisti þar sem biðlað var til þjóðhátíðarnefndar að endurskoða þá ákvörðun sína.

Andrea segir fólk sem skrifi undir undirskriftalistann sé að segja að upplifun þolenda af heiminum sé röng.

Andrea segist að lokum spyrja Ingó opinberlega af hverju hann noti ekki tækifærið til þess að brjóta blað í sögunni; „þetta er ömurleg staða sem hann kom sér sjálfur í en af hverju ekki að taka ábyrgð. Mig langar persónulega að vita af hverju karlmenn haga sér svona.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert