Föstudaginn 25. júní staðfesti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, með undirritun sinni 27 lög sem Alþingi hafði samþykkt.
Almennt skrifar forseti undir lög í Reykjavík eða á Bessastöðum en í þetta skiptið var hann staddur í Vestmannaeyjum, þar sem sonur hans var að taka þátt í Orkumótinu í fótbolta.
Kveðið er á um það í stjórnarskrá að forseti gefi lögum gildi með undirritun sinni, en það þurfi að gerast innan tveggja vikna frá því að þingið samþykkir frumvarpið. Ekki þykir vænlegt að forseti brjóti á stjórnarskrá og embættismaður forsætisráðuneytisins ók því með skjölin til Landeyjahafnar og tók svo Herjólf til Eyja.
Forsetinn gat því skrifað undir lögin, og fram er tekið á skjölunum sem birtust í stjórnartíðindum, „Gjört í Vestmannaeyjum“. Forsetinn hefur einnig skrifað undir lög á Akureyri og í Reykholti í Borgarfirði. Þá féllst hann einnig á tillögu ráðherra um framlagningu lagafrumvarps þegar hann var staddur í Staðarskála í Hrútafirði.