Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði fagnar tíu ára afmæli sínu nú um helgina. Blásið verður til afmælishátíðar á laugardag, og verður meðal annars boðið upp á pop-up kaffihús, harmónikuspil, tónlistarflutning frá Margréti Arnardóttur og Jóhönnu Seljan, leiðsögn um miðstöðina og svo að lokum verða tónleikar um kvöldið þar sem hljómsveitin Hatari spilar fyrir dansi.
Una Sigurðardóttir listakona segir í samtali við Morgunblaðið að markmið verkefnisins sé að stuðla að jákvæðri byggðaþróun á Stöðvarfirði með því að reka starfsemi á sviði menningar, fræðslu og atvinnustarfsemi skapandi greina.“
Frystihúsinu á Stöðvarfirði var lokað árið 2005 og stóð autt í nokkur ár. „Svo stóð til að rífa húsið niður, en þá kom Sköpunarmiðstöðin í heiminn,“ segir Una og bætir við að rúmlega 300 manns hafi komið og dvalið á Stöðvarfirði og skapað sína list í miðstöðinni frá árinu 2015. „Við höfum tekið á móti listamönnum úr öllum byggðum heimsálfum. Fólk hefur svo dvalið hjá okkur, allt frá einum mánuði og upp í níu mánuði.“
Miðstöðin er vettvangur fyrir alls konar mismunandi listsköpun. „Við erum með tónlistarsal, trésmíði og keramikverkstæði til dæmis. Það er hægt að gera allan andskotann hérna,“ segir Una, en í Sköpunarmiðstöðinni má m.a. finna upptökuhljóðver, en það var sett upp árið 2019, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.