Símamótið hófst í gær þar sem 5., 6. og 7. flokkur stúlkna í knattspyrnu keppast við. Um þrjú þúsund keppendur, á aldrinum 8 til 12 ára, taka þátt.
Mótið hófst í gær með skrúðgöngu allra keppnisliða sem lagði af stað frá Smárahvammsvelli að Kópavogsvelli. Þar var mótið sett með ávarpi frá tónlistarkonunni Bríeti. Búast má við mikilli gleði á mótinu í ár, en það stendur yfir til sunnudags.
Þetta er í 37. skipti sem mótið er haldið, en samkomutakmarkanir settu svip sinn á mótið í fyrra. Kórónuveirufaraldurinn setur þó svip sinn á mótið í ár en 32 stúlkur í fimmta og sjötta flokki KR í fótbolta geta ekki tekið þátt vegna þess að ein stúlka í hópnum greindist með Covid í gær.
Þrátt fyrir allt bera stelpurnar sig vel að sögn þjálfara. „Þetta er frábær hópur sem ég er með í höndunum, þær eru ótrúlega jákvæðar og samheldnar og tækla þetta eins og annað,“ segir Íunn Eir Gunnarsdóttir, þjálfari stúlknanna.