Forstjórar Coca Cola á Íslandi og Ölgerðarinnar segja fyrirtækin koma betur út úr kórónuveirufaraldrinum en útlit var fyrir á tímabili. Þá er staðan hjá Coca Cola í Evrópu óvíða betri en á Íslandi.
Gengi fyrirtækjanna vitnar um að neyslustigið hefur haldist hátt, þrátt fyrir faraldurinn, nú þegar kaflaskil eru að verða í veitingageiranum.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir kórónuveirufaraldurinn munu hafa óveruleg áhrif á rekstur fyrirtækisins.
„Þetta er að jafna sig. Júlí hefur verið frábær mánuður og júní var metmánuður hjá Ölgerðinni. Þá ekki í sölu áfengis heldur var hann stærsti mánuðurinn í heildarsölu hjá Ölgerðinni frá upphafi,“ segir Andri í Morgunblaðinu í dag.