Mestu máli skiptir að fyrirbyggja frekari skriður

Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru …
Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru rýmd. Ljósmynd/Lögreglan

Enn er unnið við að ljúka frágangi og tiltekt vegna aurskriða sem féllu í Varmahlíð og í Tindastóli í síðustu viku. Yfirlögregluþjónn segir að verkefni lögreglu hverfist aðallega um það þessa dagana en einnig að fyrirbyggja að slíkar skriður falli aftur. 

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra.
Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við höfum verið við hreinsunarstörf og þau ganga raunar bara vel. Svo snýst þetta líka um að reyna að fyrirbyggja að þetta komi fyrir aftur. Við höfum grafið holur til þess að skoða hvort einhver vatnssöfnun sé til staðar og eins líka verið að veita vatni sem safnast í farveg og koma því burt,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra. 

Hann segir einnig að enn eigi ein fjölskylda eftir að snúa aftur á heimili sitt í Varmahlíð. Önnur fjölskylda hefur þegar snúið aftur til síns heima. 

Stefán segir að ráðast verði með tíð og tíma í heildarmat á öllu svæðinu til þess að fá skýrari mynd á vatnssöfnun. 

„Við munum þurfa að grafa fleiri holur og skoða ástandið til þess að fá svona nánari mynd á heildina litið. Þannig getum við fengið svona skýrari mynd á svæðið í heild sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert