„Þeim var ekki ætlað neitt annað en að deyja“

Fimmmenningarnir sem standa fyrir því að mál vöggustofunnar verði tekin …
Fimmmenningarnir sem standa fyrir því að mál vöggustofunnar verði tekin til rannsóknar. Lengst til vinstri má sjá Árna H. Kristjánsson og við hlið hans stendur Hrafn Jökulsson. Ljósmynd/Unnur Karen

Líkherbergi og skírnarfontur á fyrstu hæð í vöggustofu Thorvaldsensfélagsins báru þess merki að húsnæði stofnunarinnar hafi verið hannað með það í huga að taka á móti deyjandi börnum, að sögn Árna H. Kristjánssonar sagnfræðings.

Árni er einn þeirra fimm sem fóru á fund borgarstjóra á miðvikudag og krafðist rannsóknar á starfsemi vöggustofa í borginni á árunum 1949-1973. Hann, líkt og aðrir í hópnum, dvaldi sjálfur á vöggustofu sem barn.

Í greinargerð sem Árni tók saman um starfsemi vöggustofa í Reykjavík á árunum 1949-1973 kemur fram að börn sem ekki hafi verið hugað líf hafi verið færð á vöggustofuna til þess eins að deyja en dauðsföll voru tíðari á þessum stofnunum en almennt meðal barna.

„Stundum voru fötluð og alvarlega veik börn ekki höfð á sjúkrahúsi heldur flutt rakleitt á vöggustofuna og látin deyja þar. Þetta er viðbjóðslegt. Það kom einhver prestur, signdi þau og svo dóu þau,“ segir Árni í samtali við mbl.is.

Kveðst hann spyrja sig að því hvers vegna börn sem glímdu við veikindi hafi ekki verið höfð á viðeigandi sjúkrastofnun. Segir meðal annars í greinargerðinni að á vöggustofunni hafi unnið ófaglærðar starfsstúlkur í sjúkrahússloppum við að sinna börnunum.

Vill vita hvað varð um öll börnin

Hrafn Jökulsson, einn fimmmenninganna sem hafa staðið fyrir upptöku þessa máls, lýsir því að miklir fordómar hafi ríkt í garð barnanna og foreldra þeirra á stofnuninni. „Þeim var ekki ætlað neitt annað en að deyja af því þetta voru þannig börn sem áttu þannig foreldra. Þetta voru börn ógæfufólksins, utangarðsfólksins og fátæka fólksins,“ segir Hrafn.

Hrafn stofnaði hópinn RÉTTLÆTI á Facebook sem er nú eins konar umræðuvettvangur fyrir fólk sem hefur einhverja tengingu við vöggustofurnar. Segir hann sláandi að sjá hversu margir þeirra sem dvöldu á vöggustofunum glíma nú við eftirmála þess. Lýsir hann vöggustofunum sem uppsprettulind mannlegrar óhamingju og ógæfu sem liggur enn þungt á ótal mörgum einstaklingum og fjölskyldum. Stór hluti þeirra sem komst lifandi frá stofnuninni hafi ýmist leitað í brennivín eða vímuefni. Segir hann einnig hlutfall sjálfsvíga í hópnum hrikalegt.

„Það sem mér finnst mikilvægt að gerist er að við finnum öll þau börn sem þarna voru og eru enn þá lifandi, og athugum hvernig þau hafa það og hvernig þeim hefur reitt af í gegnum lífið. Ég vil líka að við komumst að því hvað varð um öll hin börnin sem eru dáin núna, ýmist sem börn eða ungmenni. Ég vil vita hvað varð um hvert einasta barn sem þarna var,“ segir Hrafn.

Málið þaggað niður á sínum tíma

Árni segir málið um starfsemi vöggustofanna hafa lengi verið þaggað niður, ekki síst á meðan flest starfsfólk og forstöðukonur voru enn á lífi. Árið 1967 vakti dr. Sigurjón Björnsson, sálfræðingur og borgarfulltrúi, athygli á óæskilegum uppeldisaðferðunum sem tíðkuðust á vöggustofunum. Birtist þá grein eftir hann í tímaritinu Rétti þar sem hann lýsti meðal annars þeim skaða sem gæti hlotist af því að vanrækja börn tilfinningalega til lengri tíma. Gerði hann einnig rannsókn á þroska 14 barna á aldrinum 4-13 ára sem höfðu verið vistuð á vöggustofum borgarinnar. Þegar Sigurjón og Adda Bára Sigfúsdóttir, veðurfræðingur og borgarfulltrúi, gerðu tilraun til að taka upp málið hjá borgarstjórn hlaut það ekki mikinn hljómgrunn.

Að sögn Árna var það flokkspólitík sem gerði það að verkum að ekkert varð úr málinu á sínum tíma. Gagnrýnin á vöggustofurnar kom frá kommúnistum í borgarstjórn á meðan hægri menn voru við völd. Var málið því undantekningarlaust slegið af borðinu. Stóð vöggustofan því opin í sex ár frá því að Sigurjón vakti fyrst athygli á þessu. Var þá öllum orðið ljóst hvaða slæmu áhrif starfsemin gæti haft á börnin sem þar voru vistuð. 

„Út af lágkúrulegri flokkspólitík árið 1967 var ekkert gert og börn héldu áfram að veslast upp og deyja. Þau vissu betur og gerðu ekkert,“ bætir Hrafn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert