Þórunn Egilsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, er látin 56 ára að aldri. Þórunn lést í gærkvöldi eftir langvinna baráttu við krabbamein. Frá þessu greina nánustu aðstandendur hennar.
Þórunn settist á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 2013 og gegndi formennsku þingflokksins árin 2015 og 2016, síðan aftur síðan árið 2018.
Hún sat sem 2. varaforseti þingsins 2015 til 2016 og sem 1. varaforseti þingsins árin 2016 til 2017.
Þórunn fæddist þann 23. nóvember 1964 í Reykjavík, dóttir Egils Ásgrímssonar bólstrara og Sigríðar Lúthersdóttur. Þórunn skilur eftir sig eiginmann sinn, Friðbjörn Hauk Guðmundsson, og þrjú börn; Kristjönu Louise, Guðmund og Heklu Karen.
Þórunn lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1984 og prófi frá Kennaraháskólanum árið 1999. Hún vann sem sauðfjárbóndi frá árinu 1986 til ársins 1999 þegar hún tók við starfi sem grunnskólakennari. Hún sat í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps árin 2010 til 2014, þar af sem oddviti frá 2010 til 2013.