Gosið líkara því sem það var áður

Enn lifir í eldgosinu í Geldingadölum.
Enn lifir í eldgosinu í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Virknin í eldgosinu í Geldingadölum er nú nær því sem þekktist áður en öfgakenndar virknisveiflur fóru að einkenna hegðun þess. Hraun vellur nú upp úr aðalgígnum, sem á undanförnum dögum hefur „slökkt og kveikt á sér“ til skiptis.

Bjarki Kaldalóns Friis, hjá Veðurstofu Íslands, segir að lítið sjáist til gossins á vefmyndavélum í augnablikinu vegna þoku en að hann geti staðfest að virknin hafi tekið sig upp að nýju. 

„Já, óróinn jókst seint í gærkvöldi um það bil og er bara búinn að aukast í gegnum nóttina. Á vefmyndavél hefur sést svona einhver virkni, ekki alveg strókavirkni en það vellur svona aðeins upp úr gígnum.“

Of snemmt að segja að gosið sé komið aftur í sama horf

Bjarki segir að of snemmt sé að fullyrða um að áðurnefndum öfgasveiflum í virkni sé lokið en að nú líti gosið meira út eins og það var hér áður en virknin fór að minnka. 

„Núna lítur það meira út eins og það var áður en það fór að breytast mikið um síðustu mánaðamót. Svo datt náttúrulega óróinn niður alveg á mánudag, en það hefur mallað í þessu síðan þá og þangað til í gærkvöldi. Og núna lítur út fyrir að óróinn sé kominn upp í það sem hann var um síðustu helgi eða eitthvað svoleiðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert