Gott ferðalag að skrifa göngubók

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, ritstjóri göngubókar UMFÍ.
Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, ritstjóri göngubókar UMFÍ. Ljósmynd/Aðsend

Útivistagarpar landsins geta nú glaðst en göngubók Ungmennafélag Íslands fyrir árið 2021 er komin á netið og í dreifingu um landið en þar er að finna hvorki meira né minna en 272 gönguleiðir.

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, ritstjóri bókarinnar og kynningarfulltrúi UMFÍ, segir markmið bókarinnar að efla útivist og hreyfingu fólks. Er bókin gerð með það í huga að fjölskyldur geti farið saman út að hreyfa sig og eru göngurnar jafnan stuttar og þægilegar, eða allt frá hálftíma upp í þrjár klukkustundir. Hægt er að sjá lengd og áætlaðan tími með hverri leið í bókinni.

Gönguleiðirnar um Heiðmörk eru meðal þeirra fjölmörgu leiða sem hægt …
Gönguleiðirnar um Heiðmörk eru meðal þeirra fjölmörgu leiða sem hægt er að finna í bókinni. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við hugsum svo mikið allir með hjá UMFÍ og reynum að hafa gönguleiðirnar eftir þeirri stefnu. Við erum ekki að taka hæstu fjöllin og tindana, frekar bara að hver og einn geti skroppið út úr bílnum,“ segir Jón.

Tilvalin í ferðalagið

Hægt er að nálgast bókina í flestum sundlaugum landsins en eintökin eru frí. Hvetur Jón fólk til að kippa þeim með sér í ferðalög eða á viðburði sem haldin eru á vegum UMFÍ. Hefur hann stundum laumað eintaki af bókinni með mótagögnum enda er hægt að finna gönguleiðirnar í námunda við flesta viðburði félagsins, víðs vegar um landið.

Auk korta og textalýsinga í bókinni er einnig hægt að finna QR-kóða við útvaldar leiðir. Geta lesendur skannað kóðann í gegnum síma og fengið þar nákvæmari leiðbeiningar með gönguleiðunum í gegnum smáforritið Wapp. Hluti leiðanna er frír í smáforritinu en borga þarf fyrir aðrar en að sögn Jóns er ekki um mikinn kostnað að ræða.

Enginn brjálaður göngumaður

Jón segist sjálfur ekki skilgreina sig sem neinn brjálaðan göngumann þó hann hafi gaman af því að fara annað slagið. Spurður hvort einhver tiltekin leið sé í uppáhaldi kveðst hann ekki geta ákveðið sig. Er Jón þó nýlega búinn að fara nokkrar gönguleiðir sem eru staðsettar rétt fyrir utan höfuðborgina sem eru honum ofarlega í huga.

„Ég fór til dæmis að Helgufossi í Mosfellsdal fyrir ofan Gljúfrastein, ég var algjörlega heillaður. Vífilsstaðavatn kom mér líka á óvart. Þetta var bara ótrúlega flott og skemmtilegt. Sérstaklega gaman að sjá líka hvað það voru margir þarna að njóta útiverunnar.“

Gönguleiðin í kringum Vífilsstaðavatn kom Jóni skemmtilega á óvart.
Gönguleiðin í kringum Vífilsstaðavatn kom Jóni skemmtilega á óvart. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bókin uppfærð á hverju ári

Að sögn Jóns getur verið heljarinnar mál að halda upplýsingunum í bókinni uppfærðum enda gönguleiðirnar fljótar að breytast. Bæði eru gamlar leiðir að lokast og nýjar að opnast. Tekur því mikla samvinnu að skrifa bókina og leiðrétta úreltar upplýsingar og færa inn nýjar.

„Þegar bókin er komin út þá sé ég hvað ég get gert betur fyrir næstu. Ég er til að mynda strax byrjaður að hugsa út í hvernig er hægt að bæta bókina sem kemur út 2022. Það er gott ferðalag að skrifa bókina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert