Fjallalömbin er hjólreiðahópur þriggja æskuvina sem ólust saman upp á Álftanesi. Þeir eru Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður, Rúnar Gíslason matreiðslumaður og Haukur Ómarsson fjármálastjóri.
Magnús segir í Morgunblaðinu í dag að skátaflokkurinn þeirra í barnæsku hafi heitið Fjallalömbin og þaðan komi nafnið.
Þeir hafa á undanförnum fimm árum unnið að því á hverju sumri að fara kringum þrettán stærstu jökla landsins á fjallahjólum. „Við vorum búnir að vera á fjallahjólum svona til gamans, en svo fékk Haukur þessa hugmynd. Verkefni fyrir okkur að klára sem bæði hvetur mann af stað og svo er líka fínt að hafa svona ramma í kringum þetta,“ segir Magnús.
Þeir félagar eru eins og stendur að hjóla hringinn í kringum Vatnajökul. Magnús segist gera ráð fyrir því að ferðalagið muni taka fimmtán til tuttugu daga, enda um 900 kílómetra löng leið.