Byggðaráð Norðurþings samþykkti í vikunni að efna til íbúakönnunar um afstöðu til fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins fyrir uppbyggingu vindorkuvers á Melrakkasléttu.
Fram kom á fundinum tillaga frá Kolbrúnu Ödu Gunnarsdóttur, forseta sveitarstjórnar og fulltrúa VG, þess efnis að fallið yrði frá fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi Norðurþings „fyrir byggingu stórtæks vindorkuvers á Hólaheiði“.
Sömuleiðis lagði Kolbrún Ada til að umfjöllun sveitarstjórnar Norðurþings um skipulagsbreytingar í tengslum við orkuverið yrði frestað þar til að umhverfismati væri lokið að fullu.
„Með þeim hætti verði málsmeðferð best háttað enda liggja þá niðurstöður ítarlegra rannsókna, upplýsingaöflunar og opinbers samráðs fyrir áður en sveitarstjórn tekur sínar veigamiklu, stefnumarkandi ákvarðanir um landnýtingu í gegnum Aðalskipulag,“ segir í tillögu Kolbrúnar Ödu.
Byggðaráð samþykkti að fresta afgreiðslu tillögunnar og samþykkti í kjölfarið að ráðast í íbúakönnunina, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.