Örtröð á flugvellinum og seinkun á öllu flugi

Miklar raðir voru í innritun á Keflavíkurflugvelli í morgun. Myndin …
Miklar raðir voru í innritun á Keflavíkurflugvelli í morgun. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil örtröð var í innritun á Keflavíkurflugvelli í morgun. Raðir voru langar og gengu svo hægt að seinka þurfti flugferðum.

Seinkun varð á öllu flugi Icelandair til Evrópu í morgun, í mörgum tilfellum um allt að klukkustund.  

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir ástæðuna flókna innritun á tímum Covid. Icelandair sér sjálft um innritun í sín flug.

„Þetta var mjög stór dagur í morgun, það voru fjórtán brottfarir til Evrópu. Innritun er mjög flókin þessa dagana vegna þeirra sóttvarnareglna sem gilda á okkar áfangastöðum. Okkur ber að tryggja það að hver og einn farþegi sé með rétt og gild vottorð eða PCR-próf þar sem það á við áður en þeir ganga um borð hjá okkur,“ segir hún.

Ekki sé hægt að nýta sjálfvirkar lausnir í því.  

Mönnuðu öll innritunarborð sem fengust

Hún bætir við að allir hafi lagst á eitt að reyna að leysa vandann, Icelandair hafi verið með öll innritunarborð sem fyrirtækið fékk í húsinu mönnuð en þrátt fyrir það hafi þetta valdið seinkunum.

Spurð hvort tilefni sé til þess að beina því að fólki að mæta fyrr á flugvöllinn segir Ásdís jákvætt að gera það. Hins vegar séu flestir mjög vel upplýstir og með rétt gögn með sér og afar fáum sé vísað frá. Hins vegar þurfi að fara yfir pappíra hjá öllum og það taki tíma.

Verður brugðist við þessu með einhverjum breytingum?

„Við verðum bara að skoða það, en það eru yfirleitt flestar brottfarir á laugardögum og þetta var einstaklega stór dagur í dag.“

Innritun er flókin á tímum Covid, því fara þarf yfir …
Innritun er flókin á tímum Covid, því fara þarf yfir vottorð og PCR-próf. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert