Rífandi stemning í nýja miðbænum: „Mikið ævintýri“

Margt var um manninn og rífandi stemning í nýja miðbænum á Selfossi þegar hann var opnaður í dag. 

Um er að ræða reynsluopnun á fyrri áfanga miðbæjarins. Matarmenningarsetur með níu veitingastöðum var opnað í endurreistu Mjólkurbúi Flóamanna en þar er einnig Skyrland, upplifunarsýning um íslenska skyrið.

Þar að auki voru fimm verslanir opnaðar við hið nýja Brúarstræti á Selfossi.

Formleg opnun fyrsta áfanga miðbæjarins verður síðar í sumar þegar framkvæmdum verður að fullu lokið. Næstu daga og vikur leita aðstandendur verkefnisins eftir áliti bæjarbúa og annarra og vilja slípa reksturinn til í samstarfi við gesti.

Árni Leósson og Andri Björn Jónsson reka veitingastaðina El Gordito …
Árni Leósson og Andri Björn Jónsson reka veitingastaðina El Gordito Taco og Romano Pasta Street Food.

„Geysilega spennandi“

Selfyssingarnir Andri Björn Jónsson og Árni Leósson reka veitingastaðina El Gordito Taco og Romano Pasta Street Food í Mjólkurbúinu. „Það er geysilega spennandi og mikið ævintýri að taka þátt í þessari uppbyggingu hér í miðbænum.

Við bjóðum upp á einfalda en frábæra rétti, sex mismunandi taco í El Gordito og átta ljúffenga rétti úr heimagerðu pasta. Það verður gaman að taka á móti Selfyssingum og öðrum hér og gera okkar besta til að láta þetta ganga upp,“ segja þeir.

Fjölbreyttar búðir og veitingastaðir

Þær verslanir sem verða opnaðar í Brúarstrætinu eru Penninn/Eymundsson, Tiger, 1905 Blómabúð, Listasel Gallerí og jólabúðin Mistilteinn. Inann tíðar verður tísku- og hönnunarverslunin Motivo opnuð þar líka auk ísbúðar Kjöríss, Miðbæjaríss og fleiri verslana.

Í matarmenningarsetrinu verða átta veitingastaðir opnaðir. Þeir eru Samuelsson Matbar, Flatey Pizza, Smiðjan Brugghús, Menam, Romano Pasta Street Food, El Gordito Taco, Dragon Dim Sum og Ísey skyrbar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert