Elti bílinn heim og keypti hann

Steini í Svissinum undir stýri á Pacernum sem hann er …
Steini í Svissinum undir stýri á Pacernum sem hann er búinn að gera upp og breyta. Árni Sæberg

„Ég sá bílinn bara í akstri og elti hann heim og keypti á staðnum. Mér fannst þetta einstakt stykki og hann bara greip mig.“

Þannig lýsir Aðalsteinn Ásgeirsson, Steini í Svissinum, aðdragandanum að því að hann eignaðist fyrsta Pacerinn sinn upp úr 1980.

– Og hvernig varð eigandanum við?

„Það var mesta furða hvað hann tók þessu vel. Ég þurfti ekki mikið að ganga á eftir honum. „Nú, líst þér svona vel á hann?“ sagði hann bara og við gengum til samninga.“

Hann brosir.

Pacer, árgerð 1978, eftir að Steini fór um hann höndum.
Pacer, árgerð 1978, eftir að Steini fór um hann höndum. Árni Sæberg


Steini átti bílinn í nokkur ár en á endanum var ekið á hann með þeim afleiðingum að hann eyðilagðist. „Tóta (Þórunn Pálmadóttir eiginkona hans) var á honum, ég var úti á sjó. Við sáum bæði mikið eftir honum.“

Fyrir vikið þóttist Steini hafa himin höndum tekið þegar annan Pacer, árgerð 1978, rak á fjörur hans. Hann hefur nú nýlokið við að gera bílinn upp. „Fimm ára ánægjustundir, eða eru þær sex ára?“ segir hann og ljómar allur við minninguna. „Ég hef ekkert tímaskyn núorðið.“

Hann glottir.

Einkanúmerið á bílnum segir í reynd allt sem segja þarf: Fun car eða skemmtibíll.

Svona lítur Pacer út í upprunalegri mynd.
Svona lítur Pacer út í upprunalegri mynd. Árni Sæberg


Bandaríski bílaframleiðandinn American Motors Corporation framleiddi Pacer á árunum 1975 til 1979, eða AMC Pacer, eins og tegundin heitir fullu nafni. Um er að ræða eina Pacerinn á landinu sem fluttur var inn af umboði, Bílaumboði Egils Vilhjálmssonar. Steini veit um þrjá eða fjóra aðra en þeir komu á götuna gegnum Sölunefnd varnarliðseigna og eru allir horfnir nú. „Þessi var næstum því horfinn líka; var til þess að gera ónýtur þegar Egill Matthíasson, barnabarn Egils sem flutti bílinn inn, kom með hann til mín. Hann hringdi í mig og bauð mér hann fyrir svona tíu árum,“ upplýsir Steini.

„Það er lengra síðan,“ skýtur Óskar Gunnarsson, samstarfsmaður Steina í Svissinum, inn í. „Ég fékk hann lánaðan hjá þér árið 2008.“

„Þarna sérðu,“ segir Steini. „Ekkert tímaskyn.“

Steini að störfum í Svissinum. Þar hefur hann varið ófáum …
Steini að störfum í Svissinum. Þar hefur hann varið ófáum klukkustundunum gegnum árin. Árni Sæberg


Fleiri hafa fengið Pacerinn lánaðan en hann „lék“ stórt hlutverk í kvikmyndinni A Little Trip to Heaven eftir Baltasar Kormák árið 2005. Hollywoodstjarnan Forest Whitaker flengdist um á honum um allar koppagrundir. Það þýðir að Steini hefur átt hann í að minnsta kosti sextán ár. 

Ólst upp í bílum

– Ertu fæddur með bíladellu, Steini?

„Já, það má eiginlega segja það. Pabbi var vegavinnuverkstjóri vestur í Grundarfirði og ég ólst upp í bílum. Ég var alltaf með körlunum. Ég er rafvirki lærður og vann við það í þónokkuð mörg ár, meðal annars á Lagarfossi gamla. Þegar ég hætti á sjónum fór ég að leita mér að einhverju að gera og lenti í bílarafmagni í Reykjavík. Eftir það varð ekki aftur snúið. Ég opnaði verkstæði. Fyrst uppi á Höfða en síðustu þrjátíu árin tæp hef ég verið hérna í Kópavogi.“

Nostrað er við hvert smáatriði.
Nostrað er við hvert smáatriði. Árni Sæberg


Fyrsti bíllinn sem hann gerði upp var Kadilakk Eldorado, árgerð 1968. „Hann var ónýtur þegar ég eignaðist hann; eins og allir mínir bílar. Ég fann hann á geymslustæði í Hafnarfirði; komst að því hver átti hann og sá var svo almennilegur að gefa mér bílinn. Ég hef ekki tölu á þeim bílum sem ég hef gert upp síðan fyrir sjálfan mig og aðra. Það er aldrei friður, alltaf einhver að biðja mig að gera þetta og gera hitt. Ég er þakklátur fyrir það allt, smátt sem stórt, enda hef ég ofboðslega gaman af þessu. Sumt er bara smá lagfæringar og annað alveg frá grind.“

– Þær hljóta að vera ófáar klukkustundirnar sem þú hefur varið í þetta áhugamál?

„Uss, minnstu ekki á það. Ég hef enga tölu á þeim. Lengst af var ég hérna öll kvöld eftir vinnu og allar helgar. Það er aðeins minna núna eftir að ég fór að reskjast. Ég hef ekki sama úthaldið lengur. En maður er alltaf einhvern djöfulinn að pota.“

– Hvað segir frúin við þessu?

„O, hún veit hvað ég hef gaman af þessu.“

Hann brosir.

Að breyta ónýtu í nýtt

– Hvað er skemmtilegast við þetta?

„Að smíða og breyta ónýtu í nýtt. Þegar maður ýtir bílunum loksins út þá brosir maður.“

– Kemur fyrir að þú færð til þín bíl og hugsar: Þetta er ekki hægt?

„Nei, aldrei. Það er allt hægt.“

Bíllinn er búinn afturljósum úr Kadilakk.
Bíllinn er búinn afturljósum úr Kadilakk. Árni Sæberg


Viðskiptavinirnir treysta Steina líka upp til hópa. „Það koma yfirleitt ekki séróskir frá eigendunum; þeir treysta mér bara fyrir þessu. Margir hafa áhuga á sem upprunalegustu útliti og það er í raun auðveldast fyrir mig og minnsta vinnan. Maður sér það allt á myndum og teikningum. Þegar þarf að breyta þarf hins vegar að smíða og hugsa. Þá verður maður líka að vanda sig; það er auðvelt að klúðra slíkri vinnu á þann veg að bíllinn verði kjánalegur. Það getur verið fín lína milli fegurðar og fáránleika.“

Steini hefur yndi af tilbrigðum við stefið og líkja má honum við músíkant sem ekki les nótur en spilar eins og engill eftir eyranu. „Ég fer eftir minni tilfinningu og smekk og það tekur yfirleitt lengstan tíma að sitja fyrir framan bílinn og sjá hvað ég vil gera. Þetta er spuni. Ég teikna ekki sjálfur og verð fyrir vikið að sjá þetta fyrir mér áður en ég byrja að smíða. Þegar ég hef ákveðið mig þarf ég eiginlega aldrei að breyta.“

Nánar er rætt við Steina í Svissinum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Hreinlæti og snyrtimennska skiptir Steina öllu máli, hvort sem er …
Hreinlæti og snyrtimennska skiptir Steina öllu máli, hvort sem er að innan eða utan, en ekkert ljótara en skítugur fornbíll. Árni Sæberg
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert