Fatlaður maður vistaður á réttargeðdeild í fjögur ár

Kleppsspítali.
Kleppsspítali. mbl.is/Árni Sæberg

Mikið fatlaður karlmaður hefur verið vistaður á réttargeðdeild í fjögur ár án nauðsynlegrar þjónustu. Maðurinn var sýknaður af alvarlegri líkamsárás og metinn ósakhæfur árið 2018, en hann er með alvarlega flogaveiki, heilaskaða og greindarskerðingu. Fjölskylda mannsins og yfirlæknir réttargeðdeildar segja að brotið sé á réttindum mannsins með vistuninni. 

Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV í dag. Þar er maðurinn sagður hafa fengið alvarlega heilabólgu sex ára gamall og flogaveiki og farið í stóra heilaskurðaðgerð í Bandaríkjunum 18 ára gamall. Maðurinn er fæddur árið 1989.

Maðurinn var haustið 2017 dæmdur fyrir stórfellda líkamsárás. Mat geðlæknis er að maðurinn sé verulega vanþroskaður andlega og stafi það m.a. af greindarskerðingu, endurteknum flogum og lyfjameðferð. Þar að auki hefði hluti framheila mannsins, sem stjórnar dómgreind og hegðun, verið fjarlægður í skurðaðgerðinni í Bandaríkjunum. Manninum var því gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun, réttargeðdeildinni á Kleppi, til 28. september 2017. En þar er hann, fjórum árum síðar og hefur úrskurðurinn verið framlengdur sjö sinnum. 

Árið 2018 var héraðsdómur síðan 2017, þar sem maðurinn hafði verið sakfelldur fyrir líkamsárás, felldur úr gildi og maðurinn sýknaður og metinn ósakhæfur. Héraðsdómur hafnaði því síðan ári síðar að láta manninn lausan af réttargeðdeild. Fjölskylda mannsins segir í samtali við RÚV að maðurinn hafi verið sviptur öllum réttindum og fái ekki viðeigandi þjónustu. 

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur vísað málinu frá sér og er það nú hjá félagsmálaráðuneytinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert