Bogi Jónsson bæklunarskurðlæknir var eini Íslendingurinn og jafnframt elsti keppandinn sem lauk heilli keppni (full-distance) í Extreme Triathlon sem haldið var á Snæfellsnesi í gær. Hann er 63 ára gamall.
Keppninni svipar til svokallaðs járnkarls en vegalengdir eru aðeins lengri og aðstæður erfiðari að sögn Boga. Keppendur synda 3,86 kílómetra í Lárós undir Kirkjufelli, hjóla 205,5 kílómetra um Snæfellsnesið með 2.683 metra hækkun og hlaupa svo 42,2 kílómetra með 1.496 metra hækkun frá Ólafsvík að Arnarstapa og til baka.
Þá var íslenska veðrið áskorun, en það var bæði vindur, þoka, rigning og sól á leiðinni.
Bogi segist ekki hafa búist við því að ljúka keppni. Koma þarf í mark á undir 20 klukkustundum en hans tími var rúmlega 19 og hálf klukkustund. „Einhvern veginn leiddi eitt af öðru og mér tókst að ljúka þessu,“ segir hann.
„Tilfinningin að koma í mark var svolítið sérstök því ég reiknaði aldrei með því að komast fyrir „cut-down“-tímann. Ég eiginlega geri mér ekki grein fyrir því ennþá að ég hafi náð þessum árangri,“ segir hann.
„Ég hugsa að ég hafi svona fimm, sex sinnum íhugað að hætta í keppninni,“ segir hann. Ein slík stund var eftir að hjólinu lauk og hlaupið var fram undan. „Þá fékk ég heita íslenska kjötsúpu sem gaf mér mikinn aukakraft og ákvað þá að halda áfram keppni.“
Hann segir hvatningu frá sjálfboðaliðum keppninnar hafa skipt sköpum. „Það er gríðarlega mikið atriði að hafa gott fólk á hliðarlínunni sem hvetur og styrkir.“
Bogi hafði ekki æft lengi fyrir keppnina. Hann byrjaði að hlaupa árið 2017 og tók þátt í sínum fyrsta járnkarli þegar hann var sextugur og öðrum árið 2019. Í aðdraganda keppninnar undirbjó hann sig með því að hlaupa, hjóla og synda reglulega.
Aðspurður hvort aldurinn hafi sagt eitthvað til sín segir hann svo ekki vera. „Ég hef nú sparað mig töluvert í gegnum árin, hef ekki stundað mikið íþróttir, bæði vegna vinnu og fjölskyldu,“ segir hann.
„Þegar börnin eru farin að heiman skapast meiri tími til að æfa sig. Ég er nú svo heppinn að hafa heilsu til og hef nýtt það tækifæri til að æfa mig.“
Bogi var eini Íslendingurinn sem lauk fullri keppni en það er bandarískt fyrirtæki sem stendur fyrir mótinu. Einnig var hægt að fara hálfar vegalengdir og luku nokkrir Íslendingar þeirri keppni.
„Það voru mjög klárir, góðir og duglegir Íslendingar í hálfum en þeir þurftu að mæta í brúðkaup um kvöldið. Þeir voru náttúrlega helmingi fljótari með styttri leið og komust þá í brúðkaupið,“ segir Bogi.
Hann segir keppnina hafa verið einstaklega skemmtilega vegna náttúrufegurðarinnar á Snæfellsnesinu.
„Það er alveg einstök náttúruupplifun að stunda þetta í svona gríðarlega fallegri náttúru. Ég hef aldrei upplifað annan svona íþróttaviðburð fyrir utan kannski Laugavegarhlaupið, þar sem mætist íþrótt og svona náttúrufegurð,“ segir hann.
„Þetta er tilvalinn íþróttaviðburður fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í þar sem þetta er við bæjardyrnar hjá okkur í gríðarlega fallegri náttúru. Það eru áform um að halda þetta á næsta ári líka.“