Íslendingar fylgdust margir hverjir grannt með úrslitaleik Evrópumóts karla í knattspyrnu sem fram fór á Wembley í Lundúnum. Ítalir lögðu Englendinga 3-2 í vítaspyrnukeppni.
Sigurinn er sá fyrsti hjá Ítalíu á EM frá árinu 1968. Englendingar þurfa hins vegar að bíða lengur eftir sínum öðrum sigri á stórmóti. Englendingar höfðu ekki svo mikið sem komist í úrslitaleik á stórmóti í 55 ár og mega því eflaust vel við una.
Barir og krár í miðborginni voru þéttsetin meðan á leik stóð. Sumir staðir urðu yfirfullir og þurftu margir að láta sér nægja að fylgjast með leiknum á útisvæðum staða.