Heildarendurskoðun þyrfti að fara fram á málaflokknum sem snýr að fólki á flótta á Íslandi og mikilvægasta skrefið væri að leggja niður Útlendingastofnun.
Þetta segir Sema Erla Serdar, stjórnmála- og Evrópufræðingur og formaður Solaris, sem eru ein fernra samtaka sem standa að mótmælum á Austurvelli í dag.
„Þessi mótmæli koma í kjölfarið á þeim atburðum sem við urðum vitni að í vikunni sem er að líða, þegar tveir umsækjendur um alþjóðlega vernd eru lokkaðir á fölskum forsendum í húsakynni Útendingastofnunar þar sem þeir eru frelsissviptir og beittir miklu harðræði og ofbeldi og handteknir og sendir úr landi án nokkurs fyrirvara. Þetta eru aðgerðir sem við höfum ekki orðið vitni að áður og til merkis um aukna hörku hjá yfirvöldum í garð fólks á flótta,“ segir Sema.
Hún segir þau ætla að koma saman til að sýna fólki á flótta samstöðu og senda skýr skilaboð til íslenskra yfirvalda um að slík ómannúðleg stefna í málefnum fólks á flótta verði ekki liðin.
„Við sjáum það ítrekað og í raun alltaf að afstaða almennings til fólks á flótta er allt önnur en stjórnvalda og það er yfirleitt mikil samstaða um það að gera betur í þeim efnum. Ég er sannfærð um það að almenningur styður ekki þessa stefnu sem við erum að horfa upp á,“ segir hún.
Að mati Semu þyrfti að taka kerfið í málefnum útlendinga í gegn og reisa það upp á nýjum grunni sem hefði mannúð og virðingu fyrir fólki að leiðarljósi. Mikilvægt umbótaskref væri að leggja niður Útlendingastofnun.
En þyrfti ekki alltaf að vera til stofnun sem sér um þessi málefni, sérðu þá fyrir þér að hún yrði af annarri tegund eða með aðrar áherslur?
„Það þyrfti vissulega að vera einhver umgjörð í kringum málefni fólks á flótta, hvort sem það væri sérstakt ráðuneyti eða stofnun eða annað slíkt, það væri þá bara hluti af enduruppbyggingu. Útlendingastofnun í þeirri mynd sem hún er í dag, sem vissulega er byggð upp á vafasömum grunni, er hreinlega bara úr sér gengin, stofnunin gerir meira ógagn en gagn og hana þarf hreinlega bara að leggja niður, og því fyrr því betra,“ segir Sema.