Lægð milli Grænlands og Íslands stjórnar veðrinu á landinu næsta daga þar sem suðvestlægar vindáttir ráða, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Í dag fara skil með rigningu yfir vesturhluta landsins og þeim fylgja skúraveður í kvöld og næstkomandi daga. Fyrir austan er hins vegar áframhaldandi blíða í kortunum. Hiti 10 til 21 stig, hlýjast norðaustanlands.
Á morgun gengur í suðaustanátt, 8-15 m/s á vestanverðu á landinu. Hvassast verður við fjöll og þar má búast við varhugaverðum vindhviðum, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi þar sem hviður geta náð 28 m/s. Varasamt verður fyrir ökutæki með aftanívagna að vera á ferðinni.