Georgískum tannlækni ranglega vísað úr landi

Tannlæknirinn framvísaði gildu neikvæðu PCR-vottorði við komu sína.
Tannlæknirinn framvísaði gildu neikvæðu PCR-vottorði við komu sína. Ómar Óskarsson

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi um að vísa georgískum tannlækni úr landi hefur verið felld úr gildi. Tannlæknirinn framvísaði gildu neikvæðu PCR-vottorði við komu sína en var vísað úr landi á grundvelli þess að hann gat ekki sýnt fram á að heimsókn hans væri vegna brýnna erindagjörða. Kemur þetta fram í úrskurði kærunefndar útlendingamála.

Tannlæknirinn kom til landsins 1. júní en á þeim tíma var ekki búið að opna fyrir ónauðsynleg ferðalög utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þótt tannlæknirinn sé georgískur var hann með pólskt dvalarleyfi sem hann framvísaði þegar í stað. Samkvæmt úrskurði kærunefndar útlendingamála hefði það átt að duga enda var opið fyrir ferðir einstaklinga innan Evrópska efnahagssvæðisins, Pólland fellur þar undir.

Allt er þegar þrennt er

Tannlæknirinn hafði fyrst tjáð lögreglu að hann væri kominn til landsins að skoða eldgosið í Geldingadölum en þegar lögreglan sagði honum að það væri ekki næg ástæða sagðist hann vera kominn til að leita sér að vinnu. Lögreglan sagði honum að það væri ekki heldur næg ástæða, hann þyrfti að vera kominn með vinnu áður en hann kæmi til landsins. Breyttist þá sagan á ný og sagðist maðurinn vera kominn til að hitta íslenska kærustu sína. Lögreglan hafði samband við meinta kærustu mannsins sem sagðist bara vera vinkona hans.

Manninum var þá vísað úr landi fyrir að hafa ekki tekist að rökstyðja tilgang komu sinnar nógu vel, á eigin kostnað. Kærði hann ákvörðunina sem var felld úr gildi 22. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert