Rannsókn á vöggustofum tekin fyrir á næsta fundi

Fimmenningarnir ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra.
Fimmenningarnir ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra. mbl.is/Unnur Karen

Rannsóknin á Vöggustofunni að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins verður lögð fyrir á næsta fundi borgarráðs og rædd þar. Á fundinum mun fylgja tillaga um að undirbúin verði úttekt eða rannsókn á málinu en ekki er enn búið að ákveða verklag, hvernig á að manna hana eða afmarka.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við fyrirspurn mbl.is.

Á miðvikudaginn í síðustu viku fóru fimmmenningarnir Árni H. Kristjáns­son, Fjöln­ir Geir Braga­son, Hrafn Jök­uls­son, Tóm­as V. Al­berts­son og Viðar Eggerts­son á fund borgarstjóra þar sem þeir fóru fram á að gerð yrði úttekt á starfsemi vöggustofanna en þeir höfðu allir verið vistaðir þar sem ungbörn.

Dagur B. Eggertsson féllst á tillögur þeirra og mun borgin hefja rannsókn á málinu.

Fyrir fundinn höfðu fimmmenningarnir sent borgarstjórn greinargerð þar sem greint var frá starfsháttum sem voru við lýði á þessum stofnunum. Segir meðal annars:

„Á Hlíðar­enda og síðar Vöggu­stofu Thor­vald­sen­sfé­lags­ins var skipu­lag starf­sem­inn­ar vél­rænt og örvun á vits­muna- og til­finn­ingaþroska barn­anna var ekki á dag­skrá. Á hon­um voru þrír stór­ir glugg­ar og í gegn­um þá var hægt að fylgj­ast með börn­un­um í ber­strípuðum, sótt­hreinsuðum og upp­lýst­um her­bergj­um. Þar voru þau lát­in liggja í rimla­rúm­um án örvun­ar því starfs­fólki var for­boðið að snerta eða tala við þau að nauðsynja­lausu.“

Frásagnir af slæmri reynslu hrannast inn

Hrafn Jökulsson, einn af fimmmenningunum, stofnaði hópinn RÉTTLÆTI á samfélagsmiðlinum Facebook sem er nú orðinn eins konar umræðuvettvangur fyrir einstaklinga sem annaðhvort voru vistaðir á vöggustofum eða eru aðstandendur þeirra.

Hrannast nú þar inn frásagnir af slæmri reynslu en Hrafn segir sláandi að heyra af öllum þeim sjálfsvígum sem hafa átt sér stað á meðal þeirra sem voru vistaðir á vöggustofunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert