Barninu sem flutt var með sjúkraflugi til Reykjavíkur, eftir að hafa misst meðvitund og næstum drukknað í sundlauginni á Flúðum í gær, vegnar vel. Því hefur verið haldið á spítala svo hægt sé að fylgjast með batanum. Barnið festist undir stiga í lauginni sem hefur nú verið breytt til þess að minnka slysahættu.
Herdís Storgaard, verkefnastjóri hjá Miðstöð slysavarna barna, hefur í gegnum tíðina unnið mikið tengt forvörnum við drukknun hér á landi.
„Stigar mega ekki vera þannig að börn geti fest sig í þeim,“ segir hún í samtali við mbl.is. Þetta snúist allt um bil en fyrir liggi upplýsingar um það hve stór bilin milli þrepanna megi vera út frá líffræðilegri höfuðstærð og brjóstmáli barna.
Herdís bendir á að sundlaugar þurfi reglulega að endurnýja starfsleyfi sitt og að eftirlitsaðilar sem geri úttektir eigi að ganga úr skugga um að öllum nýjustu stöðlum sé fylgt.
Sigurjón Pétur Guðmundsson er umsjónarmaður sundlaugarinnar á Flúðum. Hann segir að stiginn kunni að vera kominn til ára sinna, hann viti þó ekki hvenær hann var endurnýjaður síðast. Starfsleyfi sundlaugarinnar var hins vegar endurnýjað um áramótin og svo fór árleg úttekt Heilbrigðiseftirlitsins fram síðast í júní. Engar athugasemdir voru gerðar við stigann í þeirri úttekt.
Stiginn hefur tekið breytingum í gegnum tíðina einmitt vegna ábendinga frá Heilbrigðiseftirlitinu en hann var síðast færður til og honum lokað með þeim hætti að ekki væri hægt að komast undir hann á hliðunum.
„Hann þrepar sig fram en ekki beint niður með bakkanum, þá myndast þríhyrningar á hliðunum og þeim var lokað,“ segir Sigurjón Pétur. Þetta er þungur stigi sem er festur við bakkann en stendur í lappir ofan í grynnsta hluta sundlaugarinnar.
Sigurjón Pétur lýsir því hvernig barnið náði að kafa til botns og troða sér í heilu lagi undir neðsta þrepið að framanverðu sem er þó ekki nema 19 sentímetrar frá botninum. Aðstandendur barnsins urðu þess fljótt varir en vandasamt var að koma barninu undan stiganum á ný.
„Starfsmaður frá okkur stekkur strax út í og svo kemur annar maður sem var staddur í anddyrinu að hengja upp auglýsingu. Hann stökk út í líka,“ segir Sigurjón Pétur og bætir við að sá maður sé vanur björgunarsveitarmaður.
Mönnunum tókst í sameiningu að bjarga barninu undan stiganum, sem þá hafði misst meðvitund. Hófu þeir endurlífgun sem skilaði árangri og á aðeins nokkrum mínútum voru fimm eða sex einstaklingar, úr viðbragðsteymi Flúða, mættir á svæðið.
Sigurjón Pétur segir að sundlauginni hafi verið lokað eftir að atvikið átti sér stað í gær. Fyrsta verk dagsins í dag hafi svo verið að fara með stigann í áhaldageymsluna og gera á honum endurbætur. Stálpinnum var bætt við á stöðum þar sem bilin voru þannig að í dag eru ekki nema 7 sentímetra bil milli þrepanna.