Telja hjartavöðvabólgu afar sjaldgæfa aukaverkun

Frá bólusetningu í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurstaða sérfræðinganefndar Lyfjastofnunar Evrópu er sú að skrá eigi hjartavöðvabólgu og gollurshúsbólgu sem nýjar aukaverkanir í lyfjatextum bóluefna Pfizer og Moderna gegn Covid-19. Um er að ræða afar sjaldgæfar aukaverkanir sem þó er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sé vakandi fyrir. 

Þetta kemur fram á vefsíðu Lyfjastofnunar Íslands. 

Í maí síðastliðnum hóf sérfræðinganefndin að meta tilvik hjartavöðvabólgu og gollurshúsbólgu í kjölfar bólusetningar með bóluefnunum tveimur, Comirnaty, sem Pfizer/BioNTech framleiðir, og Spikevax, sem Moderna framleiðir. Bæði bóluefnin eru notuð hér á landi. 

Mæði, brjóstverkur og sterkur hjartsláttur

Tilvik aukaverkananna tveggja höfðu ekki komið fram í klínískum rannsóknum og því þörfnuðust þau frekari skoðunar.

„Einkenni umræddra sjúkdóma geta verið breytileg, en lýsa sér gjarnan sem mæði, brjóstverkur, og sterkur og stundum óreglulegur hjartsláttur,“ segir í tilkynningu Lyfjastofnunar. 

Rúmlega 300 tilkynningar borist

Nefndin fór yfir öll fáanleg gögn sem tilvikunum tengjast, þ.e. þær 164 tilkynningar um hjartavöðvabólgu (e. myocarditis) og 157 tilkynningar um gollurshúsbólgu (e. pericarditis) sem borist höfðu af Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig voru skoðuð gögn um sams konar tilvik víðs vegar að úr heiminum.

Í lok maí 2021 höfðu verið gefnir um 177 milljón skammtar af Comirnaty og 20 milljón skammtar af Spikevax í ríkjum EES. Fyrirliggjandi gögn benda til að tilvik hjartavöðvabólgu og gollurshúsbólgu séu afar sjaldgæfar aukaverkanir þessara tveggja bóluefna. Greining sérfræðinganefndarinnar bendir til að umrædd tilvik hafi fyrst og fremst komið upp innan hálfs mánaðar frá bólusetningu, í fleiri tilvikum eftir seinni skammt bóluefnanna, og oftast hjá ungum karlmönnum. Í fimm tilvikum var um andlát að ræða, en þá hjá eldri einstaklingum eða fólki með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir í tilkynningu Lyfjastofnunar. 

Heilbrigðisstarfsmenn ættu að vekja athygli fólks á þessu

Niðurstaða sérfræðinganefndarinnar er sú að hjartavöðvabólga og gollurshúsbólga geti í einstaka tilvikum fylgt bólusetningu með Comirnaty og Spikevax. Það er þó afar sjaldgæft. Nefndin mælir með að þessi einkenni verði skráð sem nýjar aukaverkanir í lyfjatextum bóluefnanna.

Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsmenn séu vakandi fyrir einkennum hjartavöðvabólgu og gollurshúsbólgu. Þeir ættu að vekja athygli fólks sem bólusett er með viðkomandi bólefnum, á að leita þegar í stað til læknis verði umræddra einkenna vart,“ segir í tilkynningu Lyfjastofnunar. 

170.000 manns hafa fengið bóluefnin tvö hér

Bóluefni Pfizer er það sem hefur mest verið notað hér á landi en tæplega 140.000 manns hafa fengið skammt eða skammta af bóluefninu. Um 30.000 manns hafa fengið bóluefni Moderna, en það er bóluefnið sem fæstir skammtar hafa verið gefnir af hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka