Á árinu 2020 voru heildarlaun launafólks að meðaltali 794 þúsund krónur á mánuði og helmingur launafólks var með á bilinu 570 til 908 þúsund krónur á mánuði. Tíundi hver launamaður var með regluleg laun undir 400 þúsund krónum á mánuði og tíundi hver með yfir milljón.
Þetta segir í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.
Laun hækkuðu meira í lægri tekjutíundum en í þeim hærri, aðallega vegna áherslu á krónutöluhækkanir í kjarasamningum. Þannig var hlutfallsleg hækkun reglulegra launa í lægstu tíund um 9,5% meðan sambærileg hækkun í efstu tíund var 5,1%.
Þá segir einnig í tilkynningu Hagstofunnar að meðallaun í landinu hafi hækkað, sem skýra má meðal annars með þeirri staðreynd að fleiri í lægri tekjutíundum misstu störf á árinu 2020.
Laun og dreifing heildarlauna er mismunandi eftir atvinnugreinum en heildarlaun launafólks í fullu starfi voru að jafnaði hæst í fjármála- og vátryggingastarfsemi árið 2020, eða tæplega 1,1 milljón króna á mánuði.
Lægst voru heildarlaunin að jafnaði í rekstri gististaða og veitingarekstri eða um 597 þúsund krónur á mánuði. Dreifing heildarlauna var mest í fjármálastarfsemi en minnst í rekstri gististaða og veitingarekstri og skýrist það meðal annars af samsetningu starfa innan atvinnugreina.
Í fjármálastarfsemi voru til dæmis rúmlega tveir þriðju launafólks í störfum sérfræðinga, tækni- og sérmenntaðs starfsfólks meðan um helmingur starfa í rekstri gististaða og veitingarekstri voru störf við ræstingu og afgreiðslu.