Ætluðu sér ekki að koma til Íslands

Lögreglan hefur rætt við mennina með aðstoð túlks.
Lögreglan hefur rætt við mennina með aðstoð túlks. mbl.is

Laumufarþegarnir fjórir sem voru um borð í súrálsskipinu sem kom til hafnar í Straumsvík 8. júlí höfðu ekki hugmynd um hvert förinni var heitið. Þeir vildu bara komast af landi brott, að sögn Jóhanns Karls Þórissonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Laumufarþegarnir koma upprunalega frá Gíneu og tala bara frönsku en lögreglan hefur átt samskipti við þá með aðstoð túlks. Fóru þeir um borð í skipið í Senegal og voru uppgötvaðir af skipverjum á fjórða degi. 

Verða sendir úr landi, spurningin er bara hvert

Skipið sigldi fyrst til Brasilíu en mönnunum var ekki hleypt úr skipinu og inn til landsins þar. Þeir dvöldu því í einni káetu skipsins uns þeir komu að landi á Íslandi. Jóhann telur nokkuð ljóst að mennirnir hafi ekki ætlað sér sérstaklega að koma hingað.

Mennirnir eru ekki með skilríki og uppfylla því ekki skilyrði til að dvelja á Íslandi. Þeir verða sendir úr landi, en Jóhann segir að ekki sé enn á hreinu hvert. Mennirnir voru fluttir í sóttvarnarhús við komu sína til landsins og hafa dvalið þar síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert