Urður Egilsdóttir
„Það er allavega enn mikil þörf á farsóttarhúsi, en hvort það sé þörf á sóttkvíarhótelunum áfram er annarra að meta,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, í samtali við mbl.is og bætir við að mjög fá smit hafi komið í gegnum sóttkvíarhótelin, þ.e.a.s. mjög fáir hafi greinst smitaðir í seinni skimun á hótelunum.
„Við erum með í notkun þrjú hús í Reykjavík og eitt í Neskaupstað,“ segir Gylfi en eitt af húsunum í Reykjavík er farsóttarhús en þar dvelja þeir sem eru í einangrun, smitaðir af Covid-19. Hin eru sóttkvíarhótel þar sem fólk dvelur í sóttkví. Á þessum stöðum dvelja nú um 300 einstaklingar að sögn Gylfa.
Hefur aðsóknin aukist með auknum straumi ferðamanna?
„Nei, hún hefur eiginlega bara staðið í stað. Þetta hefur verið svipaður fjöldi, en kannski mest farið upp í 600 manns. Þetta hefur örlítið minnkað eftir að bólusettir hættu að þurfa að fara í skimun, en á móti kemur að við erum að fá svolítið af ferðamönnum sem eru með bólusetningu en eru að sýkjast samt sem áður. Það kemur svo í ljós þegar fólkið er á leið úr landi.“