Árvekni ungs drengs bjargaði lífi barnsins

Sundlaugin á Flúðum þar sem barn var nærri drukknað eftir …
Sundlaugin á Flúðum þar sem barn var nærri drukknað eftir að það festist í stiga. fludir.is

Björgunarsveitarmaður sem staddur var í anddyri sundlaugarinnar á Flúðum þegar barn festist í stiga sundlaugarinnar sagði að ungur drengur í sundlauginni hefði verið sá sem varð fyrstur var við að barnið væri fast. Samvinna og samkennd sitji eftir í hugum viðstaddra.

Björgunarsveitarmaðurinn vildi árétta að samstillt átak gesta og starfsfólks hafi orðið til þess að það náðist að lyfta stiganum af barninu og koma því á bakkann. „Við vorum svo þrjú í endurlífgunum á barninu og skiptum verkum með okkur. Aðrir gestir voru að hlúa að aðstandendum barnsins,“ sagði björgunarsveitarmaðurinn.

Samvinna og samkennd situr eftir

Honum þótti mikilvægast að það kæmi fram að ungur drengur hefði fyrstur orðið þess var að barnið væri fast undir stiganum. Drengurinn lét þá strax vita. „Ef ekki hefði verið fyrir árvekni þessa unga drengs væri barnið líklega ekki á meðal okkar í dag.

Það sem situr eftir í hug okkar sem þarna vorum er samvinna og samkennd á milli allra. Allir gerðu eitthvað, hvort sem það var að koma að björguninni á beinan eða óbeinan hátt. Hvort sem það var að líta eftir börnum okkar sem ruku til aðstoðar, samskipti við Neyðarlínu og að huga að aðstandendum barnsins meðan á björgun og endurlífgun stóð,“ sagði björgunarsveitarmaðurinn sem hefur ekki áhuga á að koma fram undir nafni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert