„Bankarán 21. aldarinnar“

Nökkvi Fjalar Orrason.
Nökkvi Fjalar Orrason.

Nökkvi Fjalar Orrason, samfélagsmiðlasérfræðingur og eigandi umboðsskrifstofunnar Swipe Media, segir fólk ekki átta sig almennilega á því hve íþyngjandi það sé að missa Instagram-reikninginn sinn. Fórnarlömb netárása sem hafa misst aðganginn sinn gætu þurft að stofna nýjan reikning.

„Reikningurinn inniheldur í fyrsta lagi fjölda minninga en er líka atvinnutæki fyrir marga. Maður hefur starfað á þessum vettvangi núna í mörg ár og ég hef fulla samúð með þeim sem eru að missa aðgangana sína. Þetta er mikið áfall,“ segir Nökkvi sem er nýkominn heim frá Lundúnum.

10 reikningar óvirkir

mbl.is greindi fyrst frá því í gær Instagram-reikningar áhrifavalda sættu árásum en fórnarlömbunum hefur fjölgað í dag. Um 10 reikningar liggja nú niðri vegna árásanna sem eru taldar stafa frá tyrkneskum þrjótum. 

Nökkvi kveðst hafa heyrt af sambærilegum árásum þar sem aðgangar voru aldrei endurheimtir: „Það var reikningur með tugþúsundir fylgjenda. Konan var beðin um að leggja tiltekna fjárhæð inn á bankabók og var lofað að þá myndi allt færast til fyrra horfs. Hún greiddi upphæðina en fékk síðan engin svör og neyddist þá til að stofna nýjan reikning með engum fylgjendum.“

Nökkvi Fjalar og Egill Ploder ráku saman fjölmiðlaveldið Áttuna.
Nökkvi Fjalar og Egill Ploder ráku saman fjölmiðlaveldið Áttuna. Ljósmynd/Þorgeir Ólafsson

Tekjutapið geti orðið gífurlegt

Hann segir árásir sem þessar valda tekjutapi á degi hverjum fyrir stjórnendur aðganganna.

„Ég þekki ekki nákvæmlega tölurnar, en miðað við þau nöfn sem ég hef séð í fjölmiðlum má ímynda sér að tekjutapið sé strax töluvert,“ segir Nökkvi og bætir við að svona netárásir séu eins og bankarán samtímans.  

Nökkvi hvetur fórnarlömb slíkra árása til að hafa samband við Swipe Media þar sem hann skilji vel hvað þau séu að ganga í gegnum. „Bara á tilfinningalegum nótum. Við erum ekki með nein ráð eða lausnir, en við skiljum hvers konar áfall þetta er. Ég vil hjálpa þeim sem eru í þessari stöðu við að koma undir sig löppunum,“ segir Nökkvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert