Borgin hafnar því að vera ekki að standa sig 

Á tímabilinu maí 2018 til 1. mars 2021 tók velferðarsvið …
Á tímabilinu maí 2018 til 1. mars 2021 tók velferðarsvið að sér að reka öryggisvistun í Rangárseli með samningi við félagsmálaráðuneytið. mbl.is/​Hari

Reykjavíkurborg hafnar þeim yfirlýsingum, sem komu fram í fréttaflutningi Rúv, að borgin standi sig ekki nógu vel í málefnum einstaklinga sem þurfa öryggisvistun vegna geðfötlunar. Í yfirlýsingu frá velferðarsviði borgarinnar er sérstaklega tekið fram að öryggisvistanir falli ekki innan málefnasviðs Reykjavíkurborgar.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem áréttað er að þjónusta við einstaklinga sem þurfa öryggisvistun, falli undir ríkið en ekki borgina.

„Öryggisvistanir eru ekki hluti af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga, heldur hafa verið og eru á hendi ríkisins. Öryggisvistun er sérhæft úrræði fyrir einstaklinga sem geta verið hættulegir sjálfum sér og öðrum,“ segir í tilkynningu frá borginni.

462 búa í húsnæði fyrir fatlað fólk í borginni

Velferðarsvið Reykjavíkur tók þó að sér að reka öryggisvistun í Rangárseli með samningi við félagsmálaráðuneytið frá maí 2018 til 1. mars 2021. Kom þá fljótt í ljós að sveitarfélögum skorti lagaheimildir til að viðhafa nauðsynlegar öryggisráðstafanir. Samkvæmt Reykjavíkurborg kallaði velferðarsviðið ítrekað eftir því að skýr rammi yrði settur um öryggisvistanir sem og setningu laga og reglugerðar. 

„Búseta á vegum Reykjavíkurborgar er veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur lagt metnað í að veita fötluðum einstaklingum þann stuðning sem á þarf að halda í viðeigandi húsnæði frá því að málaflokkurinn kom yfir til sveitafélaga frá ríkinu árið 2011.“

462 einstaklingar búa í húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík. 185 þeirra eru með geðfötlun. Reykjavíkurborg bendir á að mikil uppbygging hafi átt sér stað á undanförnum árum í úrræðum fyrr þá. Á síðustu ári fengu 83 einstaklingar með geðfötlun, úthlutað húsnæði á vegum borgarinnar. Þar af eru 56 nýjar úthlutanir og 27 milliflutningar.

Í fréttatilkynningunni segir að margir þeirra geðfötluðu einstaklinga sem búa í húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík hafi haft lögheimili í öðrum sveitarfélögum við komuna á geðdeild. Með aðstoð Landspítalans hafi þeir svo breytt um lögheimili, í von um að fá viðeigandi húsnæði og þjónustu sem fyrst. 

Segja vinnubrögðum ávótavant

Velferðarsvið gagnrýndi sérstaklega frétt Rúv sem birtist í gær um málefni einstaklings sem þarf á öryggisvistun að halda. Vinnubrögðum hafi verið ábótavant enda hafi ekki verið leitað viðbragða velferðarsviðs vegna málsins. Velferðarsviðið hafnar fullyrðingum yfirlæknis réttargeðdeildar Landspítalans um að sveitarfélagið standi sig ekki í uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk.

Að lokum bendir borgin á það að miðað við núgildandi lög eigi rekstur öryggisvistunar heima á sviði refsivörslukerfisins með aðkomu heilbrigðiskerfisins. 

Verið er að endurskoða þessi lög á vettvangi félagsmálaráðuneytisins. Í nýjum lögum eigi að skilgreina betur hlutverk og aðkomu ríkis og sveitarfélaga að framkvæmd þjónustunnar. Velferðarsvið fagnar þeirri vinnu og telur brýnt að vinnu við frumvarpsgerð verði hraðað og frumvarp til laga um öryggisgæslu og öryggisvistun verði lagt fram á Alþingi hið fyrsta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert