Eiríkur Sigurðarson, fyrrverandi bóndi, er nú á leið sinni hringinn um landið. Farartækið er þó af fremur einkennilegri tegund, en um er að ræða Belarus-dráttarvél frá árinu 1967. Spurður hvort vélin sé nýtt til einhverra verka segir Eiríkur: „Nei, ég er nú bara að klappa honum, horfa á hann og gera hann upp.“
Eiríkur hefur áður gert upp tvær sambærilegar Belarus-vélar. „Á árunum 1966 til 1971 voru fluttar inn 74 svona vélar, allt Rússar, 20 hestafla, svo 40 hestafla eins og þessi sem ég er á núna, og svo 55 hestafla hlunkur.“
Eiríkur gerði upp 55 hestafla vél sem hann fann norður í Mývatnssveit og gaf hana síðan búminjasafninu á Hvanneyri. Einnig keypti faðir hans 20 hestafla vélina og Eiríkur kláraði að gera hana upp fyrir um fimm árum. Spurður hve hratt hann fari yfir á hringferðinni segir hann: „Ég er með GPS-tæki hérna hjá mér og það sýnir yfirleitt svona 26 eða 27 km/klst. Ég er alltaf með hann í fullri gjöf náttúrlega en ég er nú ekki á neinni hraðferð.“