„Við höfum ekki séð þessa fylgni hér,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunnar í samtali við mbl.is um aukna hættu á sjaldgæfum taugasjúkdómi hjá þeim sem hafa fengið bóluefni Janssen gegn Covid-19.
„Við höfum í heildina ekki fengið mjög margar tilkynningar um Janssen,“ segir Rúna en á vefsíðu Lyfjastofnunar má sjá að stofnunni hafa borist 2,123 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19.
Þar af hafa borist 238 um Janssen og eru fimm taldar alvarlegar. Alls hafa 52.599 einstaklingar fengið bóluefnið hér á landi og hafa fæstar tilkynningar borist til Lyfjastofnunnar varðandi efnið af þeim fjórum bóluefnum sem bólusett er með hér á landi.
„Þessi tilkynning frá Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna er ákveðið merki sem við fylgjumst sérstaklega með,“ segir Rúna og bætir við að mögulega komi frekari upplýsingar erlendis frá um þessi tengsl.
Fjögur bóluefni hafa nú markaðsleyfi í Evrópu frá Lyfjastofnun Evrópu og samkvæmt vefsíðu stofnunarinnar eru fjögur önnur efni í skoðun. Einstaklingar sem eru bólusettir með bóluefni sem hefur ekki fengið markaðsleyfi hafa ekki gilt bóluefnavottorð hérlendis og þurfa því að fara í sóttkví við komuna til landsins.
„Það eru í áfangamati nokkur bóluefni hjá Lyfjastofnun Evrópu,“ segir Rúna og nefnir að þar á meðal sé rússneska bóluefnið Sputnik V. Rúna segir að bóluefnavottorðin séu gefin út á vegum Evrópuráðsins. Vottorðin miðist við þau bóluefni sem hafa fengið markaðsleyfi í Evrópu fyrir Evrópu.
„Það eru ekki komnar neinar dagsetningar á það hvenær þau gætu fengið markaðsleyfi,“ segir Rúna og bætir við að til þess að bóluefnin fái markaðsleyfi þurfi að framkvæma úttektir í verksmiðjum sem framleiða efnin sem geti tekið langan tíma. „Eftirlitsmenn þurfa að fara á milli svæða og fara í sóttkví og annað slíkt. Svona praktísk atriði tefja.“