Hefur valdið erfiðleikum fyrir konur og lækna

Læknafélag Íslands (LÍ) hefur ákveðið að fela starfshópi að fara yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á sl. ári á skipulagi og framkvæmd skimunar á leghálsi og aðdraganda þeirra. Í tilkynningu frá félaginu segir að margvíslegir erfiðleikar hafi fylgt því að grundvallarþættir leghálsskimunar hafi verið færðir til erlendrar rannsóknarstofu. 

„Þá hafa tengsl við gagnabanka leitarstarfsins og við Krabbameinsskrá breyst. Þetta hefur  ekki einungis valdið erfiðleikum fyrir konur í landinu, heldur einnig fyrir starfandi lækna,“ segir í tilkynningu frá LÍ.

Umræddum starfshóp er falið að taka saman þau sjónarmið sem fram hafa komið með og á móti því fyrirkomulagi leghálsskimunar sem komið var á, kosti þess og ágalla. Hópurinn á að skila áliti eigi síðar en 1. október 2021.

„LÍ telur mikilvægt að öllum gögnum og sjónarmiðum varðandi undirbúning og breytingarferlið er varðar skimun fyrir leghálskrabbameini sé haldið til haga þannig að af þeirri reynslu megi draga sértækan og almennan lærdóm, m.a. við framtíðarskipulagningu leitarinnar og annarrar skyldrar vinnu í heilbrigðiskerfinu,“ segir í tilkynningu frá LÍ.

Stjórn LÍ hefur skipað eftirfarandi í starfshópinn:

Aðalbjörgu Björgvinsdóttur, formann Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna,

Önnu Margréti Jónsdóttur, formann Félags íslenskra rannsóknalækna,

Ágúst Inga Ágústsson, fv. yfirlækni leitarsviðs Krabbameinsfélagsins,

Bryndísi Dagbjartsdóttur, viðskiptafræðing og sjúkraliða,

Ernu Bjarnadóttur, hagfræðing,

Jóhann Ágúst Sigurðsson, prófessor emeritus og fv.  yfirlækni í heimilislækningum,

Laufeyju Tryggvadóttur, forstöðumann rannsókna- og skráningaseturs Krabbameinsfélagsins,

Reyni T. Geirsson, prófessor emeritus og fv. yfirlækni Kvennadeildar Landspítala , sem jafnframt er skipaður formaður starfshópsins og Þorbjörn Jónsson, fv. formann LÍ og áður læknaráðs Landspítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert