Hvetja íbúa og gesti til að sýna varkárni

Frá Seyðisfirði. Þar er hátíðin LungA fram undan.
Frá Seyðisfirði. Þar er hátíðin LungA fram undan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólríku veðri er spáð á Austurlandi næstu daga en fjöldi Íslendinga auk erlendra ferðamanna ferðast nú víðs vegar um landið. Tjaldstæði eru þétt setin og ferðamönnum fjölgar, að því er fram kemur í tilkynningu Lögreglunnar á Austurlandi.

Fram undan eru stórar hátíðir, til að mynda listahátíðin LungA á Seyðisfirði, Franskir dagar á Fáskrúðsfirði og Bræðslan á Borgarfirði eystri.

300 bólusettir á morgun

Í tilkynningu lögreglunnar segir að aðgerðastjórn Almannavarna á Austurlandi hvetji íbúa og gesti til að „sýna varkárni og huga vel að persónubundnum sóttvörnum“.

Stefnt er að því að bólusetja um 300 manns í landsfjórðungnum á morgun og um 80 í næstu viku en eftir það fara skipulagðar bólusetningar á Austurlandi í sumarfrí fram í ágúst. Áfram verður þó hægt að hafa samband á bolusetning@hsa.is.

„Njótum sumarsins og blíðunnar, við eigum það skilið,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert