Theódór R. Gíslason, tæknistjóri netöryggisþjónustunnar Syndis, segir nokkra áhrifavalda þegar hafa leitað til þeirra vegna árása tyrknesks hakkara. Hann kveðst ekki vita hve langan tíma það kann að taka að ná reikningnum aftur en grunar að fölskum tilkynningum sé beitt til að loka reikningunum.
„Samkvæmt Instagram-síðu þrjótsins er markmið hans að loka á reikninganna. Þá sendir hann líklega út fjölda falskra tilkynninga um áhrifavaldana til Instagram. Síðan virkjast eitthvað ferli hjá Instagram þegar tiltekinn fjöldi tilkynninga hefur borist um einn reikning sem lokar honum þá án þess að mannlegur fulltrúi gangi úr skugga um réttmæti tilkynninganna.“
Theódór segist þó ekki hafa skoðað þessi tilteknu tilfelli nægjanlega vel til að draga afgerandi ályktanir.
Theódór segir þetta vandamál að öllum líkindum komið til að vera, að minnsta kosti hér á landi.
„Þessir stóru miðlar myndu eingöngu sleppa því að loka á aðganginn þinn sjálfvirkt ef þau hafa auðkennt reikninginn þinn. Ég er ekki viss um hvernig slíkt er ákveðið en íslenskir áhrifavaldar, hve stórir sem þeir kunna að sýnast hérlendis, eru ekki nægilega stórir til að ná þeim þröskuldi,“ segir Theódór.
Mætti segja að þeir liggi vel við höggi?
„Já. Þeir eru með nægilega marga fylgjendur þannig að árásir sem þessar hafa mikil áhrif á þeirra líf og lífsviðurværi. Hins vegar eru þeir ekki nógu stórir til þess að komast á kortið hjá Facebook eða Instagram.“
Hver er besta lausnin í svona málum?
„Það er að vera með beina tengiliði hjá Facebook, það getur verið í gegnum skrifstofur erlendis en yfirleitt er best að þekkja starfsfólk, þá helst í öryggisteyminu. Það er ekkert tæknilegt hægt að gera til að redda þessu,“ segir Theódór.
Hann varar við því að veita árásarmanninum of mikla athygli: „Þessi aðili er líklegast að gera þetta fyrir athygli. Ætlunin er að sýna hve megnugur hann er,“ segir Theódór.
„Við erum að fóðra tröllin.“