Á fyrri helmingi ársins var aflað og dreift 428.585 skömmtum af bóluefni á Íslandi, langmest af bóluefni Pfizer.
Ef tillit er tekið til þess að tvo skammta þarf af öðru bóluefni en Janssen kemur í ljós að fyrstu 26 vikur ársins var Pfizer notað til bólusetninga á liðlega 51% þeirra sem boðaðir voru í bólusetningu, 21% fékk Janssen, 20% AstraZeneca og 8% Moderna.
Bólusetning hér á landi gekk treglega í fyrstu, sem rekja má til örðugleika við öflun bóluefnis í Evrópu, að því er segir í umfjöllun Morgunblaðsins í dag. Eftir að það tók að berast til landsins í einhverjum mæli upp úr páskum hefur hún hins vegar gengið vel og Ísland er komið í fremstu röð í heimi að því leyti, eins og lesa má úr tölfræði.