Rúmlega helmingur styður tillögur stjórnlagaráðs

Þeir sem kysu Pírata eða Samfylkingu ef kosið yrði til …
Þeir sem kysu Pírata eða Samfylkingu ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri en aðrir til að vilja breytingar á stjórnarskrá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega helmingur svarenda nýrrar skoðanakönnunar Gallup vill breytingar á stjórnarskrá Íslands í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs, eða nær 53%. Rúmlega 18% vilja breytingar á stjórnarskrá en ekki þær sem stjórnlagaráð lagði til. Rösklega 13% vilja að stjórnarskráin haldist óbreytt og nær 16% segja engan af fyrrnefndum kostum lýsa skoðun sinni. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. 78% svarenda tóku afstöðu en 22% kusu að svara ekki. 

Kjósendur Viðreisnar vilja frekar aðrar breytingar

Karlar vilja frekar en konur að stjórnarskráin haldist óbreytt og þeir vilja einnig frekar en konur sjá aðrar breytingar en þær sem stjórnlagaráð lagði til. Fólk milli þrítugs og fertugs er líklegra en þeir sem yngri eða eldri eru, til að vilja stjórnarskrárbreytingar í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Fólk yfir fertugu er hins vegar líklegra en fólk undir fertugu til að vilja óbreytta stjórnarskrá. 

Þeir sem kysu Pírata eða Samfylkingu ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri en aðrir til að vilja breytingar á stjórnarskrá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Þeir sem kysu Framsóknarflokkinn eða Viðreisn eru aftur á móti líklegri en aðrir til að vilja breytingar aðrar en þær sem stjórnlagaráð lagði til. Loks eru þeir sem kysu Miðflokkinn líklegastir til að vilja óbreytta stjórnarskrá en þar á eftir koma þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn og þá þeir sem kysu Framsóknarflokkinn.

Niðurstöðurnar eru byggðar netkönnun sem gerð var dagana 18.-28. júní 2021. Þátttökuhlutfall var 53,3%, úrtaksstærð 1.626 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka