Segir augljósan háska stigans greinilegan núna

Sundlaugin á Flúðum, stiginn ofan í sundlaugina sést neðst í …
Sundlaugin á Flúðum, stiginn ofan í sundlaugina sést neðst í vinstra horni myndarinnar. fludir.is

Forstjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands segir síðustu úttekt á sundlauginni á Flúðum hafa farið fram í september á síðasta ári. Þá hafi engar athugasemdir verið gerðar við stiga þann sem barn festi sig í á sunnudag, en eftirlitið hafi gert slíkar athugsemdir 2015. Hún segir þó eftir á að hyggja augljóst að hægt sé að festast í stiganum.

Í júní síðastliðnum fór einungis fram sýnataka í lauginni en ekki gagnger úttekt eins og var á síðasta ári þegar laugin var að sækja um endurnýjun starfsleyfis síns, að sögn Sigrúnar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra eftirlitsins.

Viðbrögð starfsmanna hárrétt

„Ég fylgdi lögreglunni í gær í rannsóknina. Það gekk vel og greinilegt að viðbrögðin hafi verið hárrétt hjá starfsmönnum,“ segir Sigrún.

Hún segir þetta hafa verið eins og hvert annað slys. Þó hafi eftir á að hyggja greinilega verið hægt að festast í þessum tiltekna stiga. „Það er alveg mögulegt að það hefði mátt athuga öryggi þessa stiga betur.“

Sigrún segir þar um mannleg mistök að ræða. „Það er bara venjulegt fólk sem gerir svona úttektir og enginn er fullkominn. Okkar markmið er að fara fram á fyrirbyggjandi aðgerðir og við erum oft gagnrýnd fyrir það, en yfirleitt liggur ástæða að baki þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert