Stærstu dagarnir geta reynst áskorun

Farþegar á leið sinni úr landi í gegn­um flug­stöð Leifs …
Farþegar á leið sinni úr landi í gegn­um flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar geta ekki inn­ritað sig í flugið sjálf­virkt, hvort sem er á net­inu eða í þar til gerðum inn­rit­un­ar­vél­um. Eggert Jóhannesson

Stærstu dagarnir í flugstöð Leifs Eiríkssonar geta reynst innritunarstarfsfólki stöðvarinnar mikil áskorun, sérstaklega þar sem þeir farþegar sem eru á leið úr landi í gegn­um flug­stöðina geta ekki lengur inn­ritað sig í flug sjálf­virkt, hvort sem er á net­inu eða í þar til gerðum inn­rit­un­ar­vél­um, að sögn Birnu Óskar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra sölu og þjónustu hjá Icelandair.

„Vand­inn ligg­ur í því að aðgangs­kröf­ur eru mis­mun­andi eft­ir áfanga­stöðum og sí­breyti­leg­ar. Við erum skuld­bund­in til þess að fara yfir ákveðin heil­brigðis­gögn áður en við hleyp­um fólki um borð,“ segir Birna í samtali við mbl.is.

Laugardagar vanalega langstærstir

Þrátt fyrir þessar skipulagsbreytingar hefur innritunarferlið í Leifsstöð gengið vel flesta daga að sögn Birnu.

„Heilt yfir gengur þetta bara vel. Við sendum út tölvupósta fyrir brottför þar sem við bendum fólki á síður þar sem það getur flett upp hvaða kröfur eru í landinu sem það er að fara heimsækja. Lang flestir eru bara mjög vel undirbúnir,“ segir hún.

„Þetta er auðvitað svolítið öðruvísi núna þegar fólk er kannski að fara í fyrsta ferðalagið sitt eftir Covid ef það má segja það. Þetta er svolítið öðruvísi landslag.“

Þó koma dagar sem reyna bæði á innritunarstarfsfólk og farþega. Flestir farþegar sýna aðstæðum þó skilning, að sögn Birnu.

„Þá daga sem mikið er um brottfarir á svipuðum tíma getur þetta alveg verið svolítil áskorun. Laugardagar hafa vanalega verið langstærstir hjá okkur. Þá er innritunarsalurinn fullur af fólki sem þarf að bíða svolítið því eftir að vera innritað þar sem hver innritun tekur meiri tíma en venjulega. Fólk sýnir þessu skilning og lang flestir eru mjög vel undirbúnir.“

Hafa þurft að seinka brottförum farþega

Spurð hvort farþegar hafi misst af flugi vegna tafa við innritun segist Birna muna eftir einu slíku tilfelli.

„Það voru Bandaríkjamenn sem voru á leiðinni heim til sín frá Íslandi og vissu ekki að þeir þyrftu að hafa próf með sér til að komast aftur inn í landið. Bandarísk yfirvöld gera nefnilega kröfu um það að fólk hafi með sér vottorð um að það sé ekki smitað af Covid þegar það kemur inn í landið, þó það hafi verið bólusett.

Þessir umræddu ferðamenn höfðu ekki farið í PCR-próf áður en það kom upp á völl og þurftum við því að færa brottfarir þeirra yfir á næsta dag svo það hefði tíma til að fara í prófið og sækja vottorð.“

Hraðpróf í Keflavík

Með tilkomu hraðprófa hafa líkurnar á að færa þurfi brottfarir farþega farið minnkandi að sögn Birnu.

„Þetta gerist ekki mikið lengur því nú getur fólk fengið hraðpróf í Keflavík og bandarísk yfirvöld taka alveg við þeim. Við höfum alveg verið að lenda í því að fólk komi upp á völl, stökkvi svo í PCR-próf, komi svo til baka og ná fluginu sínu.

Heilsugæslan er með mjög flotta þjónustu í PCR-prófunum en eftir að hraðprófunum var bætt við þá minnkaði hættan á því að fólk missi af fluginu sínu. Þetta er auðvitað ákveðið aðlögunarferli og ástandið tímabundið.“

Birna Ósk Einarsdóttir
Birna Ósk Einarsdóttir mbl.is/Golli

Verið að vinna í lausn

Icelandair er eitt af mörgum flugfélögum sem notast við bókunarkerfið Amadeus. Ekki er hægt að hlaða inn í kerfið nauðsynlegum skjölum á borð við bólusetningarvottorð. Af þeim sökum stendur farþegum ekki lengur til boða að innrita sig sjálfvirkt.

Að sögn Birnu er þó verið að vinna í því að finna lausn á þessu vandamáli og ættu frekari upplýsingar um nýtt innritunarfyrirkomulag að liggja fyrir í lok ágústmánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert