Einstakt drónamyndskeið af himinskini

Sigurður notaði dróna til þess að fanga þessa einstöku fegurð.
Sigurður notaði dróna til þess að fanga þessa einstöku fegurð. Ljósmynd/skjáskot

„Ég varð vitni að þessu þegar ég fór með nokkrum vísindamönnum, Ármanni Höskuldssyni og Helgu Kristínu Tómasdóttur, með þyrlu Landhelgisgæslunnar upp á lítinn hól, sem áður hafði verið ágætis fjall alveg við gíginn,“ segir Sigurður þór Helgason, eigandi DJI Reykjavík.

Þegar upp var komið segir Sigurður að Ármann hafi tekið eftir litlum rauðum blett út á miðju hrauni og bent honum á að þarna væri himinskin sem Sigurður hafði aldrei séð áður.

„Ég tek því drónann minn til þess að kanna þetta og flýg þarna að þessu og sé þar þessa ótrúlegu fegurð."

Ágætis staðfesting að sjá himnagluggann

„Ég vildi að það kæmist til skila að þetta er ekki bara einhver hola, þess vegna tek ég svona hring og svona lágt meðfram til þess að fólk sjái veggina inni í holunni. Þetta virðist vera risastór geymur eða göng,“ segir Sigurður og bætir við að það sé spurning hvort að þarna sé nýr Surtshellir í uppsiglingu.

„Þegar hraunin renna undir skurninni þá eru yfirleitt svona eldvörp sem maður sér ekki neitt og svo annað slagið þá brotnar þakið og þá færðu þessi himinskin,“ segir Ármanní í samtali við mbl.is.

„Þá sérðu ofan í hraunrásina þar sem hraunið er að renna. Við höfum vitað það að meginhluti hraunstraumsins á gígnum fer um hraungöng í hrauninu sjálfu, þess vegna sjáum við það ekki alltaf á yfirborðinu.“

Ármann segir það ágæta staðfestingu á virkninni að sjá þennan himnaglugga þar sem hraunið hafði lítið látið á sér bera síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka