Fimm smit utan sóttkvíar

Skimun fer fram á Suðurlandsbraut.
Skimun fer fram á Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm kórónuveirusmit greindust utan sóttkvíar innanlands í gær. Þrír hinna smituðu eru bólusettir að fullu en tveir ekki. Smitrakning stendur yfir og er líklegt að á annað hundrað manns munu fara í sóttkví vegna þessa.

„Það er ljóst að það er samfélagslegt smit á landinu og því er gríðarlega mikilvægt að allir fari varlega á næstu dögum og vikum, líka þeir sem eru bólusettir því augljóst er að þeir aðilar geta áfram smitast af COVID-19,“ segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um málið.

Hafa tengingar við skemmtanalífið og stóra viðburði

Töluvert hefur verið um smit utan sóttkvíar að undanförnu og hafa þau flest greinst hjá bólusettum einstaklingum. Smit kom upp á skemmtanalífinu um helgina hjá einstakling sem hafði sótt staðinn Bankastræti Club heim.

„Sérstaklega er mikilvægt að farið sé varlega í umgengni við viðkvæma einstaklinga sem gætu veikst alvarlega af COVID-19 jafnvel þó að þeir séu bólusettir.  Þau smit sem hafa komið upp undanfarna daga hafa tengingar við skemmtanalífið, stóra fjölskyldu- og vinaviðburði. Almannavarnir hvetja alla til að halda áfram að passa upp á einstaklingsbundnar sóttvarnir og fara í sýnatöku við minnstu einkenni, bæði bólusettir einstaklingar og óbólusettir. “

Fréttin hefur verið uppfærð 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert