Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk lóðarhafa Ofanleitis 14 um að hann láti vinna frumdrög að tillögu að fyrirkomulagi breyttrar uppbyggingar á lóðinni, þannig að nýtt hús verði ekki meira en þrjár hæðir auk bílastæðakjallara.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu nýlega óskaði lóðarhafi leyfis til að rífa 79 fermetra hús sem stendur á lóðinni og reisa í staðinn íbúðarhús með 6-8 íbúðum. Hið nýja hús á að verða norðar á lóðinni en núverandi hús, þ.e. nær Ofanleiti. Upphaflega var söluturn rekinn í húsinu en nokkur undanfarin ár hefur Hamborgarabúlla Tómasar verið þar með rekstur. Búllan er steinsnar frá Verslunarskólanum og hafa talsmenn nemenda lýst yfir eftirsjá að henni verði þetta niðurstaðan.
Skoða þarf vel staðsetningu hússins á lóðinni með tilliti til nærliggjandi húsa og götumyndar, segir í umsögn verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa.
Sé valið að gera það verði það á kostnað fyrirspyrjanda og án skuldbindinga um afstöðu til tillögunnar. Þegar tillaga liggur fyrir og áhrif hennar, verði metið hvort heimilað verður að láta vinna breytingu á deiliskipulagi þannig að reiknað verði með íbúðarhúsi nyrst á lóðinni, frumdrögin verða innlegg í fyrirspurn þessa berist þau.
Ef til þess kemur að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi, verði það gert í samvinnu við verkefnisstjóra hjá skipulagsfulltrúa.