Grunaður um manndráp og farinn af landi brott

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú að því að fá gefna út evrópska handtökuskipun á hendur rúmenskum karlmanni sem yfirgaf landið í byrjun júlí þrátt fyrir að hafa verið úrskurðaður í farbann, grunaður um manndráp. Vísir greindi fyrst frá. 

Maðurinn var handtekinn, ásamt tveimur öðrum, í byrjun apríl, grunaður um að hafa orðið Daníel Eiríkssyni að bana. 

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að lögregla telji sig vita hvar maðurinn sé nú staddur. 

„Við teljum okkur hafa upplýsingar um það og höfum verið í samskiptum við hann í gegnum hans verjanda,“ segir Margeir. 

Talið er að maðurinn hafi útvegað sér nýtt vegabréf, en þegar hann var úrskurðaður í farbann var lagt hald á vegabréf hans. 

„Svo virðist sem það hafi verið. Við erum bara að skoða, í samstarfi við Lögregluna á Suðurnesjum, hvað varð til þess að hann komst úr landi. Það má ekki gleyma því að farbann er ekki öruggt úrræði, það hefur sýnt sig í þessu máli sem og öðrum málum sem við höfum verið með. Þó við tökum vegabréfin getur þú ferðast án þeirra innan Schengen, þótt það eigi ekki við í þessu tilfelli,“ segir Margeir. 

Maðurinn hafði áður verið úrskurðaður í gæsluvarðhald en ekki var fallist á kröfu lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald og því var farið fram á farbann yfir honum.  

Ekki er hægt að segja til um það hvenær hægt verði að fá gefna út handtökuskipun á hendur manninum. 

„Ferlið er þannig að við gerum kröfu um það hjá dómara að gefin verði út handtökuskipun. Þegar það er komið í hús fer það til ríkissaksóknara sem fylgir því þá eftir með aðstoð alþjóðadeildar sem sendir út þessa tilkynningu,“ segir Margeir.  

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert