Hjartavöðvabólga komið upp eftir bólusetningu

Frá bólusetningum gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningum gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fáein tilvik hjartavöðvabólgu og gollurhúsbólgu í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19 hafa komið upp hér á landi. Slík atvik virðast algengust hjá ungum karlmönnum og eftir seinni skammt en til hjá öllum kynjum, á öllum aldri og hafa komið upp eftir fyrri skammt.

Þetta kemur fram á vef Embættis landlæknis.

Lyfjastofnun Evrópu hefur skorið úr um aukna tíðni sjúkdómanna tveggja í kjölfar bólusetningar með mRNA bóluefni Pfizer annars vegar og Moderna hins vegar. Bæði bóluefnin eru í notkun hérlendis og hafa flestir bólusettir hér á landi fengið bóluefni Pfizer. Aukaverkanirnar virðast fátíðar, að mati Lyfjastofnunar Evrópu. 

Þegar Lyfjastofnun Íslands svaraði skriflegri fyrirspurn mbl.is sl. mánudag höfðu engar tilkynningar um hjartavöðvabólgu eða gollurshúsbólgu borist Lyfjastofnun í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19.

Fjórar tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun

Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun hafa stofnunninni síðan borist tvær tilkynningar um hjartavöðvabólgu og tvær um gollurhúsbólgu. 

Annað tilfelli hjartavöðvabólgu kom fram í kjölfar bólusetningar með Comirnaty (BioNTech/Pfizer) og hitt tilfellið í kjölfar bólusetningar með Vaxzevria (AstraZeneca). Annað tilfellið kom fram hjá einstaklingi á aldursbilinu 50-59 ára og hitt hjá einstaklingi á aldursbilinu 12-17 ára. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Lyfjastofnun sendi mbl.is. 

„Jafnframt hafa stofnuninni borist tvær tilkynningar um gollurshússbólgu. Bæði tilfellin komu fram í kjölfar bólusetningar með Comirnaty (BioNTech/Pfizer). Annað tilfellið kom fram hjá einstaklingi á aldursbilinu 50-59 ára og hitt hjá einstaklingi á aldursbilinu 12-17 ára,“ segir í pósti Lyfjastofnunar sem hvetur heilbrigðisstarfsfólk og almenning til að tilkynna grun um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19 á vef stofnunarinnar

Sjúkdómsgangur er sagður svipaður og við gollurshússbólgur og hjartavöðvabólgur af öðrum orsökum, en í einhverjum tilvikum hefur þurft meðferð á sjúkrahúsi, jafnvel á gjörgæslu. Skv. greinargerð EMA hafa orðið 5 dauðsföll í tengslum við þessa aukaverkun í Evrópu, hjá öldruðum einstaklingum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir á vef Embættis landlæknis.

Ekki hægt að útiloka að hættan á aukaverkunum sé meiri en hættan á alvarlegum veikindum hjá börnum

Þar er mælt með því að fólk sem hefur fengið mRNA bóluefni og tekur eftir mæði, þungum og/eða óreglulegum hjartslætti eða brjóstverki ætti að leita sér læknisaðstoðar. Þá er því beint til heilbrigðisstarfsfólk að tilkynna tilvik sem þessi til Lyfjastofnunar.

Þar til nánari upplýsingar um tíðni og sjúkdómsgang gollurshússbólgu og hjartavöðvabólgu eftir mRNA bólusetningu barna við COVID-19 liggja fyrir, og á meðan smithætta vegna COVID-19 er hverfandi hérlendis er ekki hægt að útiloka að hætta á alvarlegum aukaverkunum sé meiri en hætta á alvarlegum veikindum vegna COVID-19 hjá hraustum börnum. Því verður ekki mælt með almennum bólusetningum hraustra barna 12-15 ára við COVID-19 að svo stöddu. Foreldrar munu geta óskað eftir bólusetningu barna sinna á einstaklingsgrundvelli eftir sumarleyfi heilsugæslu. Mælt er með að börn með áhættuþætti m.t.t. alvarlegra veikinda vegna COVID-19 séu bólusett.

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjum upplýsingum frá Lyfjastofnun Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert